Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/2943
Í verkefninu er leitast við að sýna fram á mikilvægi þess að endurnýta plastumbúðir frekar en urða þær og greina hvernig megi hrinda í framkvæmd virku endurnýtingarkerfi á sem skemmstum tíma. Kannað er hverjar kröfur íslensk stjórnvöld gera með lögum og reglugerðum til þegna sinna og hvaða helstu skuldbindingar Ísland hefur undirgengist í umbúða- og umbúðaúrgangsmálum. Með niðurstöðum athugunar, sem höfundur framkvæmdi, má m.a. fá tilfinningu fyrir því hvaða neysluvörum er pakkað í hlutfallslega efnismestu plastumbúðirnar og þar af leiðandi hvert megi beita kröftum sínum í þeirri viðleitni að koma þeim umbúðum til endurnýtingar. Jafnframt má lesa úr niðurstöðunum að aðeins 38% sýnishorna úr athugunarþýðinu báru réttilega tákn samræmds auðkenningarkerfis sem Evrópusambandið leggur til. Í reglugerð um meðferð umbúða og umbúðaúrgangs nr. 609/1996 og með síðari breytingum er kveðið á um notkun þessa kerfis, en almennt er það hvorki kynnt né notkun þess fylgt eftir hér á landi. Reifað er í verkefninu mikilvægi þess fyrir vistkerfi jarðar og komandi kynslóðir að plastumbúðir og plastumbúðaúrgangur séu ekki urðuð vegna mengunar sem af því leiðir. Fjallað er jafnframt um mögulegar afleiðingar óheftrar auðlindanotkunar og hvernig megi beita hagstjórnartækjum við auðlindastýringu. Að lokum eru lagðar til úrbætur sem nýta má til að hraða virkni skilvirks söfnunarkerfis.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BSritgerd_Margret_vor2009_fixed.pdf | 2,2 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |