Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/29459
Hér er sjónum beint að Martin Heidegger. Stuðst er við meginverk hans, Veru og tíma til þess að útskýra verufræðilega undirstöðu kenninga hans, þar sem hin hversdagslega upplifun manneskjunnar af heiminum liggur öllu öðru til grundvallar. Heidegger gagnrýnir heimspekihefðina í ýmsum verkum sínum fyrir að missa sjónar á þeirri spurningu sem mestu máli skiptir: Hvaða merkingu hefur Vera? Samkvæmt honum eiga þau mistök upptök sín í þýðingum úr forngrísku yfir á latínu þar sem merking mikilvægra hugtaka tapaðist. Auk þess hafi þær breytingar sannleikshugtaksins sem hófust í heimspekikenningum Platons og Aristótelesar haft mikil áhrif. Mikilvægi verufræðilegra rannsókna gleymdist og heimspekingar gáfu sér hvað Vera væri. Sú þróun festi rætur sínar í kjölfar aðgreiningar Descartes á hlutlægum og huglægum veruleika, sem Heidegger segir hafa lagt línurnar fyrir þá sjálfshyggju sem einkennir nútímaheimspeki. Afleiðingar þessarar þróunar má sjá á öllum sviðum veruleikans, en hér verður lögð áhersla á tvær mikilvægustu breytingar sem hún hafði í för með sér. Í fyrsta lagi þá rangtúlkun að Veran feli fyrst og fremst í sér afkastaaukningu og yfirráð yfir náttúrunni. Í öðru lagi hina fagurfræðilegu nálgun til listar sem verður til þess að farið er á mis við þann sannleik sem býr í góðum listaverkum. Heidegger fullyrðir að listaverk geti afhjúpað sannleik þeirrar menningar sem það tilheyrir og breytt því hvernig Vera birtist hverju samfélagi fyrir sig.
Verufræðilegar rannsóknir Heideggers eru settar í samhengi við íslenskan nútíma, bæði hvað varðar áhrifaríka viðburði og ólíkar upplifanir af listaverkum. Sú spurning er höfð til hliðsjónar hvort listaverkum 21. aldar sé kleift að þjóna þeim verufræðilega tilgangi sem Heidegger ætlar þeim. Sérstaklega er litið til þeirra öru tækniframfara sem gerst hafa á undanförnum árum og deyfa þá meðvitund sem Heidegger telur nauðsynlega til þess að komast í tengsl við eigin Veru.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA-HDGR-GV.pdf | 250.21 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlysing-gv.pdf | 288.76 kB | Lokaður | Yfirlýsing |