Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/29495
Graduale: Ein almennileg messusöngsbók, eða „Grallarinn“ eins og bókin er oftast kölluð, var gefin út 19 sinnum á 17. og 18. öld. Grallarinn hefur að geyma tónlög og texta fyrir messusöng og tíðagjörð kirkjunnar eftir siðaskiptin. Efni hans tók þónokkrum breytingum frá fyrstu útgáfu (1594) til þeirrar síðustu (1779). Í þessari ritgerð eru lögð fram yfirlit yfir efni allra 19 útgáfna Grallarans, en þau eru þrjú talsins. Í því fyrsta er yfirlit yfir efni 1.-2. útgáfu, í öðru 2.-6. útgáfu og í því þriðja 6.-19. útgáfu. Í hverju yfirliti liggur ein útgáfa til grundvallar en allar breytingar frá einni útgáfu til annarrar eru skráðar út frá henni. Þannig má sjá að hve miklu leyti Grallarinn breytist á því tæplega 200 ára tímabili sem hann er gefinn út. Leitað er svara við því hversu viðamiklar breytingar verða, hvenær þær gerast og hvort hægt sé að líta á Grallarann sem sömu bókina þegar upp er staðið. Helstu tímamót í grallaraútgáfum verða við 2. og 6. útgáfu en einnig eru áberandi breytingar á 9., 11. og 12. útgáfu. Með 2. útgáfu er latínusöng gert hærra undir höfði en áður því nótur settar við flesta latínusöngva. Í 6. útgáfu eru latínusöngvar hins vegar felldir út nema á stórhátíðum og þar með einfaldast litúrgían. 6. útgáfa liggur til grundvallar öllum þeim sem á eftir koma. Í 9. útgáfu er latínusöngur endanlega úr sögunni og með 11. og 12. útgáfu bætast við nýir sálmar fyrir ýmis tilefni t.d. kvöld- og morgunsálmar. Með 12. útgáfu fær Grallarinn á sig endanlega mynd því að engar efnislegar breytingar verða í þeim sjö útgáfum sem á eftir koma.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaritgerð BMus Kristín Þóra.pdf | 919.91 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |