Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/29568
Í þessu verkefni var rannsakað út frá mælingum, einbýlishúsaálag þar sem raf- og/eða tengiltvinnbílar voru skráðir og jafnframt borið saman við sambærileg einbýlishús sem voru án raf- og tengiltvinnbíla. Tvö 4 vikna tímabil voru skoðuð þ.e. 15. desember 2015 til 12. janúar 2016 en það er sá tími þegar íbúðaálag er hvað hæst og síðan 15. júní 2016 til 13. júlí 2016 þegar íbúðaálag er áætlað sem minnst. Álagsmælingar á íbúðaálagi hafa áður verið gerðar hjá Orkuveitu Reykjavíkur en aldrei þar sem hleðsla raf- og tengiltvinnbíla fer fram og því engar reynslutölur til. Skoðaðir voru fimm staðir á höfuðborgarsvæðinu sem áttu það allir sameiginlegt að vera í kringum einbýlishús með skráðum raf- og/eða tengiltvinnbílum. Markmiðið með rannsókninni var að skoða þörfina á endurmati á nýjum hönnunarforsendum lágspennukerfis Veitna, en helstu þættir sem koma að þeim forsendum er mesta álag, aflstuðull og álagssamlögun. Megin niðurstöður eru alveg skýrar. Álag frá hleðslu fjölda raf- og tengiltvinnbíla, þar sem einhverskonar álagsstýring er ekki notuð, mun valda veitufyrirtækjum erfiðleikum. Þetta sést vel á langæislínunum, þar sem kemur fram hærri álagstoppur hjá eigendum raf- og tengiltvinnbíla heldur en hjá öðrum. Álag frá hleðslu mun bætast ofan á núverandi álag ef hleðslu raf- og tengiltvinnbíla verður ekki stýrt yfir á næturnar. Að auki er nýtingartíminn styttri. Tilgátur um áhrif raf- og tengiltvinnbíla á lágspennukerfið og þörfina á álagsstýringu eru umtalaðar, en það er ekki fyrr en með þessari rannsókn að það er hægt að staðfesta þessar tilgátur. Það hefur verið flókið hingað til að átta sig á aflþörf raf- og tengiltvinnbíla og eru því niðurstöðurnar verðmætar upplýsingar fyrir áætlanir Veitna (OR) í framtíðinni. Lykilorð: Rafmagnstæknifræði Rafbílar Dreifikerfi
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Raunveruleg-ahrif-raf-og-tengiltvinnbila-KEE-lokaverkefni.pdf | 7,19 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |