is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/29681

Titill: 
  • Þróun námsefnis fyrir sögukennslu grunnskóla á árunum 1989–2016 : tengsl við Aðalnámskrá og nýjustu áherslur innan sagnfræðinnar
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Í meistaraverkefninu sem um ræðir var gerð athugun á námsefni í sögu fyrir grunnskóla á árunum 1989–2016. Kannað var hvaða áherslur voru í efnisvali og hvort hugmyndafræðin væri í tengslum við nýjar eða eldri hugmyndir og efnisþætti í sagnfræðiritun. Námsbækur þurfa að fylgja nútímanum og nýjustu rannsóknum í fræðunum. Líkt og aðrar námsgreinar þróast sögukennslan og því þarf að endurnýja kennslubækur reglulega. Á síðari árum hefur meiri áhersla verið lögð á afmörkuð svið sögunnar innan sagnfræðinnar líkt og félagssögu, menningarsögu, heimssögu, hagsögu, byggðasögu, kvennasögu og kynjasögu, ásamt hugmyndasögu og hugarfarssögu. Minni áhersla hefur verið lögð á styrjaldir, stjórnmál, mikilmenni og opinbera yfirlitssögu. Því var fróðlegt að kanna hvort þessar nýju áherslur væru notaðar, einnig hvort námsbækurnar væru orðnar úreltar og byggðu helst á ártölum og upptalningu staðreynda, þ.e.a.s. hvort notast væri við nýja eða gamla sagnfræðiiðkun. Námsefni og helstu efnisþættir voru kannaðir ásamt því hvernig efnið tengist undirgreinum sagnfræðinnar. Farið var yfir námskrár sem falla undir tímabilið og skoðað hvort fyrirmæli um sams konar efnistök væri að finna í námsefni og námskrám. Auk þess var fjallað um mikilvægi sögukennslu og þær aðferðir sem þar er beitt. Hvers konar efni hentar nemendum í tengslum við þroska þeirra og hvaða efni höfðar til áhugasviðs nemenda samkvæmt rannsóknum. Ásamt því að skoða hvað kennslubókahöfundar þurfa að hafa í huga við störf sín. Eftirfarandi rannsóknarspurningar verða lagðar fram: Hvernig og í hve miklum mæli birtast nýjar áherslur og hugmyndir innan sagnfræðinnar í námsefni fyrir grunnskóla? Fara höfundar eftir öðrum áhrifaþáttum við efnisval eða stjórnast þeir mest af opinberum áherslum sem finnast í aðalnámskrám? Hvort birtast hugmyndir og áherslur fyrst í námsefni eða Aðalnámskrá? Kennslubækur gefa ákveðna hugmynd um hvaða efni nemendur tileinka sér í grunnskólum landsins, því er mikilvægt að kanna hvers konar efni er miðlað til barnanna, þar sem það hefur áhrif á þroska og sjálfsmynd einstaklinga að kynnast uppruna sínum gegnum söguna. Til að halda sagnfræðinni lifandi sem fræðigrein er nauðsynlegt að vekja áhuga nemenda frá unga aldri. Það er t.d. hægt að gera með því að huga að framsetningu og efnisvali. Nemendur hafa því tækifæri til að kynnast fjölbreyttari mynd af sögunni og færast nær sannleikanum. Með því koma e.t.v. fleiri til með að stunda rannsóknir sem gagnast komandi kynslóðum. Markmið verkefnisins er því að kanna hvers konar efni er í kennslubókum, hvaða stefnu opinberar námskrár vilja taka í þessum efnum og hvort tengsl séu á milli opinberrar stefnu og efnistaka kennslubókahöfunda. Verkefnið flokkast undir heimildarannsókn sem byggist á frumheimildum og eftirheimildum. Skoðað var námsefni sem gefið var út á árunum 1989–2016 og þær opinberu námskrár sem voru gefnar út á tímabilinu. Aðalnámskrárnar komu út árið 1989 og 1999. Fjallað er um síðari hluta Aðalnámskrár sem gefin var út árið 2007. Auk þess er fjallað um þá nýjustu sem kom út í tvennu lagi, fyrri hlutinn árið 2011, en sá síðari kom út árið 2013. Í síðari hluta þeirra námskráa sem komu út árið 2007 og 2013 eru námsgreinarnar kynntar sérstaklega. Umfjöllunin skiptist í þrjú tímabil sem ná yfir um 6–12 ár, en þriðja og síðasta tímabilið er talsvert styttra þar sem það nær til nútímans. Í ritgerðinni er einnig notast við rannsóknir og skrif fræðimanna sem gefin hafa verið út í fræðibókum og tímaritsgreinum.

Samþykkt: 
  • 27.2.2018
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/29681


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ingibjörg_Hauksdóttir-lokaverkefni-2018.pdf1.39 MBLokaður til...10.09.2028HeildartextiPDF
Ingibjörg_Hauksdóttir_yfirlýsing.pdf137.36 kBLokaðurYfirlýsingPDF