Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/29711
Í þessari ritgerð segi ég frá starfendarannsókn sem ég vann veturinn 2016-2017. Tilgangurinn með þessari rannsókn var annars vegar að skoða eigin starfshætti og áhrif þeirra á nám nemenda minna í ritun og hins vegar að skoða áhrif ritunar á nám í lífsleikni með það að markmiði að finna fleiri leiðir sem ég gæti nýtt mér við kennslu ritunar og þannig að efla mig sem ritunarkennara. Þátttakendur voru ég og nokkrir nemendur í unglingadeild sem allir hafa verið greindir með einhverfu. Helstu rannsóknargögn voru rannsóknardagbók, skráningar, ljósmyndir og upptökur.
Niðurstöður sýndu að 6+1 vídd ritunar nálgunin reyndist mér mjög vel, stuðningur sá sem hún veitti mér varð til þess að efla mig sem fagmann og kennslan hjá mér varð mun markvissari. Meginniðurstaðan er sú að ritun er mjög gott verkfæri þegar kemur að lífsleiknikennslu hjá nemendum með sérþarfir en þetta tekur tíma og þarf að vera vel skipulagt. Ég tel að þessi vinna eigi eftir að reynast mér gríðarlega vel í starfi mínu sem sérkennari, ég hef fengið nýtt verkfæri í hendurnar og mun halda áfram að nota það.
Helsti lærdómur vetrarins er sá að hlutverk kennarans í ritunarnámi nemenda er stórt og að mörgu er að huga. Kennarinn þarf að skapa umhverfi sem hvetur til náms þar sem nemendum gefst tækifæri til að setja fram og takast á við eigin viðfangsefni. Það að nota myndir sem stuðning fyrir nemendur við vinnslu ritunarverkefna gafst vel. Vinna með myndir getur einnig veitt kennara upplýsingar um stöðu viðkomandi í íslensku og þannig auðveldað honum að koma til móts við nemandann þar sem hann er staddur.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaskjal-Ragnheiður Sóley Stefánsdóttir.pdf | 1,44 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing.pdf | 664,63 kB | Lokaður | Yfirlýsing |