Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/29788
Nærri lætur að eitt hlutafélag sé á hverja fjóra landsmenn og virðist lítið lát á fjölgun þeirra. Hin 20 ára gamla hlutafélagalöggjöf, með síðari breytingum, einfaldaði mjög stofnun hlutafélaga, einkum með tilkomu einkahlutafélaga, enda eru þau uppistaðan af fjölgun félaga hér á landi upp frá því. Ýmsar ráðstafanir aðrar í kjölfarið ollu því að útbreiðsla hlutafélaga jókst. Tilkoma kauphallar og skattaívilnanir til þeirra sem fjárfestu í hlutabréfum, voru þar á meðal. Nokkuð hægði á fjölgun nýskráðra hlutafélaga á árunum eftir fjármálahrunið en sú þróun hefur nú gengið til baka og hvern virkan dag eru nýskráð yfir 10 hlutafélög hérlendis um þessar mundir, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.
Ekki er getið um hluthafasamkomulög í íslenskum lögum en það hafa lönd í kringum okkur séð ástæðu til að gera. Nægir þar að nefna 82. gr. dönsku hluthafélagalaganna. Þrátt fyrir það bendir margt til þess að hluthafasamkomulög séu algeng hérlendis. Tim dæmis má nefna að hluthafasamkomulög koma við sögu í um það bil 60 dómum Hæstaréttar Íslands frá lokum ársins 2000. Einkum eru þau nefnd sem liður í sönnunarfærslu aðila máls en þó eru til undantekningar frá því þar sem réttarverkan þeirra kemur við sögu.
Samspil samningaréttar og félagaréttar er einkenni hluthafasamkomulaga. Atriði sem samið er um í hluthafasamkomulagi kemst jafnan ekki til framkvæmda nema að það sé gert á réttum vettvangi. Þannig verður aðili ekki stjórnarmaður þó um það sé samið í samkomulagi. Eftir reglum félagaréttarins þarf að til hluthafafundar og stjórnarkjörs og þar þarf hann að hljóta kosningu, svo það verði.
Allar líkur eru á að efni hluthafasamkomulaga sé fjölbreytt og eru í ritgerðinni sýnd nokkur dæmi þess. Í kjölfar landvinninga Íslendinga á árunum fyrir hrun, ekki síst á Bretlandseyjum, var í vaxandi mæli litið til samninga sem þar þekkjast og byggðir eru á fordæmaknúnu bresku lagakerfi þar sem skráðar lagareglur skortir og því tilhneiging til að skrifa öll möguleg atriði inn í samninga.
Ekki liggja fyrir opinberar tölur um fjölda hluthafasamkomulaga. Enda er það talið til höfuðkosta þeirra að þeim má leyna, bæði efni þeirra og hverjir það eru sem að þeim standa. Jafnframt setja hfl. skorður við þeim hömlum sem setja má í samþykktir um framsal hlutabréfa og vilji hluthafar ganga lengra í þeim efnum, er nærtækt að líta til gerðar hluthafasamkomulags..
Ljóst er að oft reynir á skuldbindingargildi þessara samkomulaga og ganga má út frá, að fyrir komi að vanefndir verði á þeim skyldum sem aðili samkomulags hefur tekist á hendur. Fram er komið að hluthafasamkomulag kemur við sögu í um það bil 60 dómum Hæstaréttar. Það segir ekki alla söguna, því oft kveða hluthafasamkomulög á um úrræði utan dóms til að leysa ágreining sem upp kemur, til dæmis í tilefni vanefndar. Það er enda í anda leyndarinnar sem yfir tilvist og efni hluthafasamkomulaga ríkir, að leitað sé annarra leiða til að jafna ágreining, en að höfða mál fyrir dómstólum. Burtséð frá þessu hefur verið leitt fram að vanefndaúrræði kröfuréttarins eru mis tæk í tilviki vanefndar, en efndir in natura, hald á eigin greiðslu, skaðabætur og riftun eru þau úrræði sem nærtækust eru, eftir atvikum, og eru kröfuréttarlegs eðlis. En það eru fleiri og jafnvel betur viðeigandi úrræði sem til greina koma og er gerð grein fyrir þeim.
Að síðustu er atlaga að því gerð að benda á þörf þess að breytingar verði gerðar á hfl. Er bent á að með hluthafasamkomulagi megi komast undan ófrávíkjanlegum ákvæðum hfl. um minnihlutavernd, sem þó er eitt af grunnstefum í hlutafélagalöggjöfinni. Þá er dregið fram að mikilvægt væri að líta til lagasetningar í Danmörku, þar sem með 82. gr. dönsku hfl. er ráðin rétthæð hluthafasamkomulaga, þannig að fyrst að lögunum og samþykktum félags frágengnum, komi hluthafasamkomulag, sé það til staðar. Vakin er athygli á takmörkunum almennu bannreglunnar í 104. gr. þar sem hún nær ekki til aðila hluthafasamkomulags sem ekki er hluthafi. Aðild hans að samkomulaginu getur þó sett hann í áþekka stöðu og væri hann hluthafi. Tilgangur bannreglunnar er að tryggja að sá sem ákvæðið nær til afli sér ekki ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað félagsins eða annarra hluthafa.
Gerð er grein fyrir mikilvægi þess að hluthafasamkomulög verði opinber, í það minnsta í hluthafélögum, en undanskilja mætti einkahlutafélög hvað það varðar. Bent er á að ýmsar reglur tilgreina mikilvægi þess að upplýsa um hvaðeina í starfsemi félags en hvergi lögð skylda á að upplýsa um hluthafasamkomulag sem þó væri full ástæða til að tilgreina sérstaklega. Samhliða því kæmi til álita að gert verði að gildisskilyrði hluthafasamkomulags, að það væri á skriflegu formi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Jón Þórisson - ritgerð.pdf | 1.21 MB | Lokaður til...10.04.2025 | Heildartexti | ||
Skemman yfirlýsing 3.pdf | 84.74 kB | Lokaður | Yfirlýsing |