is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/29826

Titill: 
  • Er réttarríkið notað sem pólitískt slagorð á Íslandi? Réttarríkishugtakið í íslensku samfélagi með hliðsjón af kenningum Josephs Raz
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Réttarríkið er hugtak sem flestir þekkja en fræðimenn hafa þó lengi glímt við að skilgreina inntak þess með nákvæmum hætti. Árið 1977 birtist grein eftir réttarheimspekinginn Joseph Raz í breska tímaritinu The Law Quarterly Review sem ber nafnið „Réttarríkið og dyggð þess.“ Raz hélt því fram að lögfræðingar hafi gefið réttarríkishugtakinu alltof víðtæka og gildishlaðna merkingu og því sé oft ætlað að vísa til réttarkerfa þar sem lögin séu sanngjörn og góð, tryggi frelsi fólks, jafnrétti o.s.frv. Raz taldi að með þessari nálgun væri hugtakinu breytt í gagnslaust pólitískt slagorð og gagnrýndi kenningar fyrirrennara sinna fyrir að gefa réttarríkishugtakinu of efnislega merkingu. Hann mæltist til þess að hugtakið væri notað með minimalískum eða formlegum hætti. Hann vildi að réttarríkinu væri ekki ruglað við hugsjónir um lýðræði, jafnrétti, réttlæti eða mannréttindi, heldur taldi hugtakið einfaldlega vísa til þess þegar lögin eru þannig úr garði gerð að þeim sé fært að þjóna þeim grunntilgangi að hafa áhrif á hegðun borgaranna með skilvirkum hætti.
    Réttarríkið er reglulega til umræðu á Íslandi, ekki eingöngu hjá lögfræðingum og fræðimönnum heldur einnig stjórnmálamönnum, fjölmiðlum og almennum borgurum. Sú spurning vaknar hvort notkun hugtaksins í þeirri umræðu sé eingöngu formleg í samræmi við kenningar Raz eða hvort menn gefi því þá víðtæku og gildishlöðnu merkingu sem Raz óttaðist og réttarríkinu þannig breytt í pólitískt slagorð. Í þessari ritgerð er fjallað um réttarríkishugmynd fræðimannsins Josephs Raz, þær meginreglur sem hann telur felast í réttarríkinu og ályktun hans um mikilvægi þess. Þá eru réttarríkishugmyndir fræðimannanna F.A. Hayeks, Johns Finnis og Andreis Marmor reifaðar. Loks er fjallað um réttarríkishugtakið í íslensku samfélagi með hliðsjón af íslenskum lögum og lögskýringargögnum, í þjóðfélagsmálum og á opinberum vettvangi og leitast við að komast að niðurstöðu um það hvernig raunveruleg notkun réttarríkishugtaksins er á Íslandi í samanburði við kenningar Josephs Raz.

Samþykkt: 
  • 16.4.2018
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/29826


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Réttarríkið - Erla Ylfa Óskarsdóttir.pdf822.56 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Forsíða.pdf145.17 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna
65A9F4D9-CD60-4320-A619-074F7CF2EF28.jpeg1.23 MBLokaðurYfirlýsingJPG