Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/29892
Ritgerðin fjallar um starfsemi Samtaka hernámsandstæðinga frá stofnun þeirra árið 1960 þangað til þau lögðu upp laupana árið 1970. Markmiðið er að greina stefnumál og félagsgerð samtakanna sem og aðgerðir sem þau stóðu fyrir gegn bandarískri hersetu á Íslandi. Hér bar hæst Keflavíkurgöngur, en samtökin skipulögðu einnig viðamikla undirskriftasöfnun til að þrýsta á um brottför Bandaríkjahers sem og önnur mótmæli sem tengdust baráttu þeirra, eins og gegn samningum við Breta í landhelgisdeilunni. Þá verður leitað svara við því hvers vegna samtökin liðu undir lok, en deilur milli stjórnmálafylkinga og þátttaka lykilmanna í flokkspólitísku starfi skiptu þar miklu máli.
Þótt áhrif Samtaka hernámsandstæðinga á íslenska utanríkisstefnu hafi verið takmörkuð er líklegt að barátta þeirra og félaga og stjórnmálaflokka sem komu á undan og eftir þeim hafi gert stjórnvöld tregari en ella til að samþykkja hernaðarframkvæmdir Bandaríkjamanna á Íslandi. Fyrir utan að taka upp nýjar aðferðir í baráttunni gegn Bandaríkjaher áttu Samtök hernámsandstæðinga einnig þátt í að leggja grundvöll að stefnu vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar um brottför Bandaríkjahers á fyrri hluta 8. áratugarins.
Í ritgerðinni er stuðst við margvíslegar heimildir. Hér vegur þyngst skjalasafn Samtaka hernámsandstæðinga, en þar koma fram ýmsar upplýsingar varðandi starfsemi samtakanna, eins og helstu aðgerðir sem samtökin stóðu að. Auk fræðirita um hermálið má einnig nefna endurminningabækur manna sem tengdust starfi samtakanna sem og dagblöð og önnur rit um andóf við dvöl Bandaríkjamanna á Íslandi á dögum kalda stríðsins.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Samtök hernámsandstæðinga - lokaverkefni.pdf | 1.2 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlýsing um meðferð verkefnis.pdf | 16.66 kB | Lokaður | Yfirlýsing |