is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/29913

Titill: 
 • Sjóðir hlutafélaga og greiðslur til hluthafa
 • Titill er á ensku Corporate funds and payments to shareholders
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Meginumfjöllunarefni þessarar ritgerðar eru sjóðir félaga, fjármögnun þeirra, heimil ráðstöfun, upplausn og greiðslur úr þeim til hluthafa. Markmiðið er einkum að gera grein fyrir og gefa yfirsýn yfir helstu sjóði félaga og þær reglur sem gilda en hingað til hefur lítið verið skrifað um efnið. Einnig verður fjallað um greiðslur úr sjóðum félaga til hluthafa félagsins, hvort og þá að hvaða skilyrðum fullnægðum það er heimilt. Í því sambandi verður vikið að þeim álitaefnum hvort heimilt sé að greiða út arð oftar en einu sinni á reikningsári og hvort heimilt sé að skilorðsbinda arðsúthlutun.
  Mikil aukning hefur orðið í stofnun hlutafélaga og einkahlutafélaga á undanförnum árum. Má það að einhverju leyti rekja til þess að félagsaðilar bera takmarkaða ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins, tiltölulega auðvelt er að stofna slík félög og stofnfé þeirra er hóflegt. Um félög þessi gilda ítarlegar reglur, og er þá einkum átt við lög um hlutafélög nr. 2/1995 og lög um einkahlutafélög nr. 138/1994. Að mati höfundar er nauðsynlegt að reglurnar séu ítarlegar og skýrar og að beiting þeirra sé fyrirsjáanleg. Ástæðan er einkum sú að ýmsir aðilar hafa hagsmuna að gæta, svo sem hluthafar, viðskiptamenn félagsins, lánardrottnar þess og atvinnulífið í heild sinni.
  Aðrir lagabálkar hafa einnig þýðingu. Má þar einkum nefna lög um ársreikninga nr. 3/2006 og lög um bókhald nr. 145/1994. Í þeim fyrrnefndu er m.a. að finna umfjöllun um ársreikninga félaga, ákvæði um sjóði félaga, fjármögnun þeirra, ráðstöfun og upplausn, og viðurlög við brotum á lögunum. Þrátt fyrir heiti þeirra hafa lögin ekki að geyma tæmandi umfjöllun um sjóði félaga og verður því að líta annað til þess að fá heildstæða mynd af efninu, en það er einmitt eitt af markmiðum með þessari ritgerð. Við gerð íslensku ársreikningalaganna var einkum horft til dansks réttar og verður því stuttlega vikið að ákvæðum dönsku ársreikningalaganna, og þau borin saman við þau íslensku. Í framhaldinu verður gerð grein fyrir ársreikningum félaga, uppsetningu þeirra og eðli. Auk þess verður vikið að efnahags- og rekstrarreikningum félaga enda eru sjóðir í raun reikningsleg stærð sem ýmist eru færðir á eigna- eða skuldahlið efnahagsreiknings, en fara stundum í gegnum rekstrarreikning þess.
  Félögum kann að vera skylt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð árs- og samstæðureiknings. Öðrum er það einungis heimilt en ekki skylt. Hvað sem því líður geta framangreindir staðlar haft víðtæk áhrif og sé ekki farið eftir þeim, getur það haft afleiðingar í för með sér. Af þeim sökum er sérstakur kafli tileinkaður umfjöllun um alþjóðlega reikningsskilastaðla en efnið tengist náið umfjöllun um ársreikningalög og ársreikninga félaga.
  Sjóðir hafa verið flokkaðir í frjálsa sjóði, bundna sjóði og leynda sjóði. Flokkun þessi er mikilvæg þar sem mismunandi reglur gilda um ráðstöfun sjóða eftir því hvaða flokki þeir tilheyra. Á það skal þó bent að alla sjóði er heimilt að nota í rekstrarlegum tilgangi. Umfjöllun um mismunandi flokka sjóða, og meginregluna um notkun þeirra, er að finna í ritgerðinni. Þar er farið vel yfir þau lögbundnu tilvik sem heimila úthlutun úr sjóðum félaga til hluthafa þess.
  Í framhaldinu verður fjallað um úthlutun arðs til hluthafa en það er líklegast það efni sem hvað flestir hafa áhuga á enda hljóta allir að vilja njóta árangurs vinnu sinnar og fá greiddan arð. Reglurnar að baki arðgreiðslum eru viðamiklar og má það að einhverju leyti rekja til þeirrar viðleitni að gæta hagsmuna viðskiptamanna og lánardrottna. Þeir hafa í flestum tilfellum ríka hagsmuni af því að fé fari ekki út úr félaginu. Þrátt fyrir það virðist ekki hafa verið tekin afstaða, hvorki með beinum né óbeinum hætti, til þess hvort og þá að hvaða skilyrðum fullnægðum, heimilt er að úthluta arði oftar en einu sinni á reikningsári. Álitaefnið er að mati höfundar mjög áhugavert og vekur upp ýmsar spurningar, t.a.m. hver taki ákvörðun um síðari arðsúthlutun og hvernig ársreikningur félags og skýrsla stjórnar skulu úr garði gerð. Í þessu sambandi er dómur Hæstaréttar í máli Hrd. 8. júní 2017 (584/2016) áhugaverður. Einnig verður vikið að skilorðsbindingu arðsúthlutunar, örlætisgerningum til þriðja manns og greiðslum til hluthafa við annars konar aðstæður.
  Að lokum verður vikið að helstu sjóðum félaga, hvernig þeir eru fjármagnaðir, hvort og þá að hvaða skilyrðum fullnægðum heimilt er að ráðstafa þeim og að lokum að upplausn þeirra. Í kaflanum er jafnframt að finna samantekt á helstu dómum Hæstaréttar, og úrskurðum yfirskattanefndar, sem taka á efninu. Röng notkun sjóða kann að hafa ýmsar afleiðingar, m.a. skattalegar, og telst sjálfstætt brot gegn lögum. Af þeim sökum skiptir máli til hvers er gripið.
  Við skrif ritgerðarinnar var að mestu stuðst við hefðbundnar rannsóknaraðferðir. Var einkum litið til íslenskra fræðirita, dómaframkvæmdar Hæstaréttar, framkvæmdar yfirskattanefndar og gildandi lagareglna. Jafnframt til erlendra fræðirita og lagareglna, efninu til stuðnings.

Samþykkt: 
 • 3.5.2018
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/29913


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Sjóðir hlutafélaga og greiðslur til hluthafa.pdf1.03 MBLokaður til...12.12.2030HeildartextiPDF
YfirlýsingEÝJ.pdf231.51 kBLokaðurYfirlýsingPDF