is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/29914

Titill: 
 • Skatteftirlit rafrænnar miðlunarþjónustu við útleigu fasteigna sem veitt er yfir landamæri
 • Titill er á ensku Tax Control of Electronic Brokering Services Providing Cross-Border Real Estate Leasing
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Á undanförnum árum hefur svokallað deilihagkerfi rutt sér til rúms, sem felur í sér að aðilar samnýta gæði, sem þeir nýta ekki að fullu sjálfir. Á þetta ekki síst við um fasteignir. Fer samband aðila í mörgum tilvikum í gegnum rafrænar miðlunarþjónustur. Mikil aukning á framboði fasteigna til skammtímaleigu, fyrir tilstilli rafrænna miðlunarþjónusta hérlendis, hefur leitt af sér ný verkefni fyrir skattyfirvöld á Íslandi. Skattyfirvöld hafa átt í erfiðleikum með að halda uppi fullnægjandi eftirliti með þessari starfsemi og tekjuöflun íslenskra skattaðila sem verður af slíkri útleigu.
  Yfirvöld víða um heim hafa unnið að því að gera skattheimtu skilvirkari til þess að tryggja að tekjur af þessari starfsemi séu skattlagðar innan viðeigandi skattalögsögu. Deilihagkerfin hafa gert aðilum kleift að nýta fasteignir sínar til að afla sér viðbótartekna, en mikilvægt er að skattaeftirlit sé markvisst og gagnsætt. Höfundur telur rétt og skylt að yfirvöld á Íslandi bregðist við með viðeigandi lausnum svo að þeir aðilar sem leigja út fasteignir á Airbnb greiði skatta og skyldur til samfélagsins líkt og aðrir einstaklingar og önnur fyrirtæki.
  Aukin alþjóðavæðing viðskipta hefur valdið erfiðleikum á að skilgreina skattalögsögu ríkja, en álitamál getur verið hvar, hvenær og hvernig einstök ríki geta beitt ríkisvaldi sínu í framkvæmd. Viðskiptum og þjónustu innan deilihagkerfa er miðlað á stafrænan máta og oft á tíðum þvert yfir lögsagnarumdæmi. Regluverk hérlendis hefur ekki verið nægilega skýrt við þessar aðstæður um hvaða skyldur erlend þjónustufyrirtæki bera gagnvart skattyfirvöldum hér á landi.
  Þrátt fyrir víðtækar eftirlitsheimildir skattyfirvalda markast gildissvið íslenskra skattalaga af lagaskilareglum. Ef skattaðili hefur skráð heimilisfesti erlendis og á ekki eignir hérlendis getur ríkisskattstjóri almennt ekki krafið hann um upplýsingar. Við slíkar aðstæður getur verið mjög erfitt að fá aðgang að mikilvægum skattaupplýsingum sem nauðsynlegar eru svo skattyfirvöld geti komið á fullnægjandi skatteftirliti og skattskilum.
  Markmið þessarar ritgerðar er að varpa ljósi á þau skattalegu vandkvæði sem yfirvöld hér á landi kljást nú við og tengjast starfsemi deilihagkerfa. Hyggst höfundur skoða kosti og galla mismunandi leiða sem hægt er að fara við öflun nauðsynlegra upplýsinga um notendur erlendra miðlunarþjónusta við útleigu fasteigna hérlendis. Höfundur mun skoða þessar leiðir út frá lagalegum sjónarmiðum, þ.e. þeim grundvallarreglum sem gilda hér á landi og sömuleiðis frá reglum og sjónarmiðum EES-réttar og öðrum skuldbindingum Íslands á alþjóðlegum vettvangi.

Samþykkt: 
 • 3.5.2018
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/29914


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Jóna Vestfjörð Hannesdóttir.pdf2.4 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
IMG_6417.jpg1.87 MBLokaðurYfirlýsingJPG