Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/29917
Fósturbörn eru viðkvæmur hópur í samfélaginu og þurfa oft sérhæfða stuðningsþjónustu. Rannsóknir sýna að ungmenni sem hafa reynslu af fóstri standa oft höllum fæti miðað við jafnaldra sína á snemmfullorðinsárum sínum. Fyrrum fósturbörn standa oft illa varðandi fjárhags- og atvinnustöðu en algengt er að þau hafi lágt menntunarstig. Líkamleg og andleg heilsa fyrrum fósturbarna er einnig oft ekki góð en flest fósturbörn hafa lent í einhverjum áföllum á lífsleiðinni og hafa mörg hver lítið stuðningsnet í kringum sig. Fósturbörn virðast jafnframt vera í sérstökum áhættuhóp fyrir afbrotahegðun, misnotkun á áfengi eða vímuefnum og ótímabærri þungun unglinga.
Þrátt fyrir þetta er vitað að mörg fósturbörn hafa byggt upp seiglu og reiðir almennt séð vel af á snemmfullorðinsárum sínum. Það sem einna helst einkennir fyrrum fósturbörn sem hafa byggt upp seiglu er góð tengslamyndun, stöðugleiki í fóstri, jákvæð sjálfsmynd og velgengi í skóla. Innri áhugahvöt, sjálfstraust og trú á eigin getu skiptir líka máli fyrir myndun seiglu hjá fyrrum fósturbörnum. Formlegur stuðningur yfirvalda á borð við aðstoð við nám eða húsnæði getur einnig haft mikil áhrif á myndun seiglu hjá fósturbörnum en mismunandi er eftir löndum hvernig slíkum stuðning er háttað.
Á Íslandi geta fósturbörn framlengt fósturdvöl sinni til 20 ára aldurs en eftir að henni lýkur tekur almenn félagsþjónusta við ef ungmenni sem hafa verið í fóstri þurfa á frekari stuðningi á að halda. Fyrrum fósturbörn geta ásamt öðru átt rétt á námsaðstoð, fjárhagsaðstoð, eða aðstoð með húsnæði frá félagsþjónustu í því sveitarfélagi sem þau eiga lögheimili í. Vísbendingar eru þó um ungmenni sem hafa reynslu af fóstri á Íslandi gætu þurft á frekari stuðningi á að halda í formi jafningjafræðslu eða hagsmunasamtaka.
Lykilorð: Fósturbörn; Lífsafkoma; Seigla; Stuðningur; Félagsráðgjöf.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Snemmfullorðinsár Fósturbarna.pdf | 485,7 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing.pdf | 110,5 kB | Lokaður | Yfirlýsing |