is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/29943

Titill: 
  • Skautunarmaskínur og skoðanamyndun: Áhrif samfélagsmiðla á skoðanamyndun í ljósi kenninga um hópskautun
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • „Kannski í þínum huga, en ekki í mínum,“ sagði þátttakandi í einum af umræðuhópunum sem eru til greiningar í þessari ritgerð, þegar samtal hans við annan þátttakanda sigldi í strand. Þessi setning er lýsandi fyrir þá hugmyndafræðilegu gjá og þau átök sem oft á tíðum virðist einkenna umræður á samfélagsmiðlum. Þegar fólk reynir eftir fremsta megni að sannfæra aðra um að sín afstaða sé hin eina rétta en leggur sig lítið eftir að hlusta á sjónarmið annarra. Með tilkomu samfélagsmiðla eiga samþenkjandi einstaklingar auðveldara með að tengjast þeim sem búa yfir sömu skoðunum innan svokallaðra bergmálsklefa (e. echo chambers). Þar er skipst á þeim upplýsingum og hugðarefnum sem tengja hópinn saman, jafnvel upplýsingum sem einstaklingar innan hópsins myndu ekki bera á torg á öðrum vettvangi. Hópameðlimir taka undir sjónarmið hvers annars og þeir fyllast sjálfstrausti og afleiðingin er að einstaklingar verða gjarnan einarðari í afstöðu sinni. Þessa hegðun kallar Cass R. Sunstein hópskautun (e. group polarization) - þ.e. þegar meðlimir í umræðuhóp enda með fyrirsjáanlegum hætti með öfgafyllri afstöðu, í sömu átt og þeir hölluðust upphaflega að, áður en umræðan hófst. Með þær kenningar til hliðsjónar var framvinda og þróun umræðna á hópunum Stjórnmálaspjallinu og Málfrelsinu á Facebook greind í von um að varpa frekara ljósi á áhrif samfélagsmiðla á skoðanamyndun.
    Til að öðlast betri skilning á skoðanamyndun, bæði sálfræðilega og félagslega, var m.a. rýnt í rannsóknir á starfsemi hugans, skynsemi og rökhugsun - og ekki síst því kerfisbundna misræmi og þeim þekkingarfræðilegu takmörkum sem hana hrjá. Fjallað er um hvernig þekkingariðkun mannsins er félagslega staðsett og aðild að ákveðnum hópum hefur áhrif á meðferð og túlkun upplýsinga ekki síður en þekking eða vanþekking viðkomandi. Þá er skynsemin jafnvel helst sögð notuð í mannlegum samskiptum og að rökhugsun í sjálfu sér sé einskonar innsæi byggt á ályktunum. Rannsóknir benda til að einstaklingar séu yfirleitt ekki tilbúnir til að skipta um skoðun þegar þeir fá nýjar og réttar upplýsingar, sérstaklega ekki ef þær stangast á við lífsskoðun þeirra. Þeir sem eru fastastir fyrir verða jafnvel enn ákveðnari í fyrri „rangri“ skoðun sinni eftir að hafa verið leiðréttir. Þannig viðhalda hinir öfgafyllstu „bæklaðri þekkingarfræði“ sinni, líkt og Russel Hardin kallar það. Í ljósi þessara upplýsinga er velt upp spurningum um hvort endurhugsa þurfi ákveðin grunnhugtök, s.s. skynsemi, rökræður og staðreyndir, þegar margt bendir til að slík hugtök búi yfir þekkingarfræðilegum takmörkunum og nái ekki utan um „bæklun“ í samskiptum fólks eða á samfélagsmiðlum.
    Sunstein hefur kallað samfélagsmiðla skautunarmaskínur vegna þess að þær hjálpa til við að staðfesta og þar af leiðandi magna upp fyrri skoðanir fólks. Samkvæmt honum eru pólitískir öfgahópar gjarnan afsprengi hópskautunar - aðgreining meðlima þessara hópa í „við“ og „þeir“ og tilhneigingin til að skapa tortryggni í garð „hinna“ sé einkar nytsamlegt tæki til að ýta undir frekari hópskautun. Slík aðgreining er jafnframt algeng innan þjóðernispopúlískrar orðræðu - þar sem alið er á ótta gagnvart utanaðkomandi ógn sem framkölluð hefur verið í hugum fólks, en gjarnan beinast spjótin að innflytjendum og múslimum. Tekið er á fjölbreyttum umræðuefnum inná Stjórnmálaspjallinu og Málfrelsinu en þjóðernispopúlísk orðræða er þar aldrei langt undan. Fylgst var með hvernig fólk skiptist á upplýsingum og lagði mat á rökfærslur annarra innan umræddra hópa - hvað gerðist þegar fólk var sammála eða ósammála - hvort sjónarmið sýndu merki um samræmingu eða hvort fólk skipti um skoðun. Markmiðið var að sjá hvort umræður innan þessara íslensku umræðuhópa þróuðust eftir lögmáli Sunsteins um hópskautun og þar með hverskyns umræðuvettvangur samfélagsmiðlarnir eru og hvað áhrif má ætla að þeir hafi á skoðanamyndun fólks.

Samþykkt: 
  • 4.5.2018
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/29943


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Hugvisindasvid_titilsida_Berglind.pdf62.4 kBOpinnTitilsíðaPDFSkoða/Opna
Fylgiskjal 1_Tölfræðiupplýsingar úr umræðuþráðum.pdf72.38 kBOpinnFylgiskjölPDFSkoða/Opna
Fylgiskjal 2_ Aðbúnaður.pdf2.88 MBOpinnFylgiskjölPDFSkoða/Opna
Fylgiskjal 3_ Flóttafólk á Súðavík.pdf622.76 kBOpinnFylgiskjölPDFSkoða/Opna
Fylgiskjal 4_Eineltismál.pdf4.59 MBOpinnFylgiskjölPDFSkoða/Opna
Fylgiskjal 5_Kynferðisbrot.pdf1.5 MBOpinnFylgiskjölPDFSkoða/Opna
Fylgiskjal 6_Ganga.pdf2.22 MBOpinnFylgiskjölPDFSkoða/Opna
Fylgiskjal 7_ Hryðjuverkasöngur.pdf2.48 MBOpinnFylgiskjölPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing um meðferð lokaverkefnis Berglind Þorsteinsdóttir.pdf398.39 kBLokaðurYfirlýsingPDF
Skautunarmaskínurog Skoðanamyndun_MA_BerglindTh_Lokaútg.pdf978.32 kBOpinnMeginmálPDFSkoða/Opna