is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/29969

Titill: 
 • Starfsánægja: Helstu áhrifaþættir á starfsmenn
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Mannauðsstjórnun hefur rutt sér til rúms innan fyrirtækja og hefur hún fært með sér ýmsar lausnir til þess að auka ánægju starfsmanna, draga úr starfsmannaveltu og auka þjónustugæði. Ein aðferðin sem mannauðsstjórar hafa innleitt eru mælingar á starfsánægju.
  Í þessari ritgerð verður fjallað um starfsánægju á meðal starfsmanna Lyfja og heilsu og helstu þætti sem henni tengjast. Það sem vakti áhuga höfundar á þessu efni er að engar slíkar mælingar hafa verið gerðar innan fyrirtækisins og þótti höfundi tímabært að kanna hvaða vægi ákveðnir þættir fengju úr könnun á meðal starfsmanna. Markmiðið er að stjórnendur geti nýtt sér niðurstöðurnar til að bæta þá þætti sem ekki koma vel út.
  Starfsánægja og hvatning eru nátengd hugtök og þannig oft fjallað um þessi fræði samhliða. Kenningar sem settar hafa verið fram af fræðimönnum sem fjalla um starfsánægju eru þannig ekki ólíkar þeim kenningum sem fjalla um hvatningu. Stjórnendur geta nýtt sér þessar kenningar með því til dæmis að kanna hvers konar niðurstöðu starfsmenn meta, skilgreina með skýrum hætti hvers konar frammistaða er góð þannig að viðeigandi atferli verði umbunað. Einnig þarf að sjá til þess að starfsmenn nái tiltekinni frammistöðu, tengja saman niðurstöðu og fyrirfram ákveðna frammistöðu og sjá til þess að breytingar á niðurstöðu séu nægilega miklar til að hægt sé að hvetja til aukins árangurs. Markmiðið er að stjórnendur setji sér ákveðnar stefnur og vinni samkvæmt þeim, til að mynda varðandi það að umbuna fyrir æskilega frammistöðu og ekki hafa launaleynd. Þá er æskilegt hanna störf þannig að þau séu hvetjandi og ögrandi en einnig er mikilvægt að fylgjast vel með hvatningu starfsmanna með því að taka til dæmis viðtöl eða framkvæma viðhorfskannanir.
  Tvenns konar mælingar eru einna helst notaðar við að mæla starfsánægju en þær eru annars vegar mælingar á heildaránægju og hins vegar mælingar á einstökum þáttum sem tengjast starfinu. Heildaránægja er yfirleitt mæld með spurningum líkt og: „Á heildina litið er ég ánægð/ur með ...“. Hins vegar þegar einstakir þættir tengdir starfinu eru mældir þá eru frekar settar fram fullyrðingar sem eru metnar og þannig hægt að sjá hvað hefur mest áhrif á starfsánægjuna. Þetta eru þættir á borð við laun, stjórnendur fyrirtækis, samskipti og samvinna með samstarfsfólki, sem og vinnuaðstæður. Ekki eru allir sammála um hvaða aðferð sé best að beita þar sem sumir vilja halda því fram að með því að mæla heildaránægju sé erfitt eða jafnvel ómögulegt að finna hvar óánægjan liggur og telja þess vegna mun betra að mæla einstaka þætti til að kanna starfsánægju.
  Þegar heildaránægja var skoðuð hjá Lyfjum og heilsu mátti sjá að heilt yfir eru starfsmenn ánægðir í starfi. Flestir þeirra sem svöruðu voru mjög sammála eða frekar sammála fullyrðingunni: „Þegar á heildina litið er ég ánægð/ur í starfi hjá Lyfjum og heilsu“. Einnig virðast starfsmenn vera ánægðir með samstarfsmenn og næsta yfirmann þar sem meirihluti starfsmanna var sammála þeim fullyrðingum sem lagðar voru fyrir varðandi þá þætti.
  Svigrúm til einkalífs hefur mikið verið í umræðunni undanfarin misseri, til dæmis með umræðu um styttingu á vinnuviku og verkefnum því tengdu. Kannað var með nokkrum fullyrðingum hvernig starfsmönnum fannst þeir geta sinnt einkalífi og fjölskyldu samhliða sínu starfi. Fram komu marktækar niðurstöður á milli hópa þar sem starfsmönnum sem sinna ábyrgðarmeira starfi en eingöngu afgreiðslu fannst þeir hafa meira svigrúm til einkalífs og fjölskyldu. Þrátt fyrir marktækan mun var meirihluti starfsmanna mjög sammála eða frekar sammála fullyrðingunum sem tengdust því að þeir gætu sinnt fjölskyldu og einkalífi samhliða sínu starfi.

Samþykkt: 
 • 7.5.2018
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/29969


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Starfsánægja_lokaeintak_PDF.pdf1.08 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing_skemmanAP.pdf313.73 kBLokaðurYfirlýsingPDF