Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/29980
Öll njótum við réttar til friðhelgi einkalífs skv. 8. gr. samnings Evrópuráðsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis og 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Fangar þurfa hins vegar stöðu sinnar vegna að þola ýmsar takmarkanir á réttindum sínum. Þeir eru í umsjá ríkisins af ýmsum ástæðum, meðal annars með tilliti til þjóðaröryggis. Hér verður sjónum beint að stöðu refsifanga með hliðsjón af lögum um fullnustu refsinga nr. 15/2016 og öðrum reglum er varða málefni afplánunarfanga.
Þrátt fyrir réttlætanlegar og nauðsynlegar takmarkanir á réttindum fanga í ljósi 2. mgr. 8. gr. MSE og 2.–3. mgr. 71. gr. stjskr. er álitamál hversu langt megi ganga til takmörkunar á friðhelgi fanga sem leiðir, eðli málsins samkvæmt, af frelsissviptingu þeirra. Fjölmiðlar sem dæmi njóta víðtæks frelsis til að fjalla um almannahag, þar á meðal um málefni sem varða fanga, beint eða óbeint. Það mótar síðan almenningsálitið að miklu leyti. Umfjöllun fjölmiðla um málefni fanga er með ýmsum hætti en títt er að fangarnir séu nafngreindir. Slíkur fréttaflutningur vekur upp þá spurningu hvort umfjöllun fjölmiðla sé farin að ganga of nærri friðhelgi einkalífs fanga þrátt fyrir umleitan fangelsisyfirvalda til að vernda fanga frá almennu umtali.
Í öðrum kafla ritgerðarinnar verður farið yfir helstu reglur sem gilda um stöðu afplánunarfanga. Í athugasemdum við frumvarp til gildandi fullnustulaga er vísað til þess að við breytingar á þágildandi lögum hafi verið höfð hliðsjón af evrópskum fangelsisreglum. Reglurnar eru settar af Evrópuráðinu sem hefur látið til sín taka í málefnum fangelsa og er um að ræða lágmarksreglur um meðferð fanga. Verður því sjónum einnig beint að þeim áhrifum sem reglurnar hafa haft á umrædda löggjöf. Í lok kaflans verður vikið að öðrum réttindum en einkalífi og fjölskyldulífi fanga sem óhjákvæmilega skerðast stöðu þeirra vegna. Í þriðja kafla verður fjallað um 8. gr. MSE. Fyrst um stöðu sáttmálans í íslenskum rétti og því næst hvaða réttindi það eru sem talin eru njóta verndar ákvæðisins. Réttindin eru talin upp í 1. mgr. 8. gr. MSE, þ.e. rétturinn til friðhelgi einkalífs, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta. Í lok kaflans verður fjallað um þær meginreglur er varða skilyrði til takmörkunar á þeim réttindum sem ákvæðið verndar; fyrst um þau skilyrði sem talin eru upp til takmörkunar í 2. mgr. ákvæðisins ásamt umfjöllun um meðalhófsreglu og svigrúm aðildarríkjanna til mats. Í fjórða og fimmta kafla verður vikið að tveimur meginefnum ritgerðarinnar, þ.e. annars vegar takmörkunum á einkalífi fanga og hins vegar á fjölskyldulífi. Farið verður ítarlega yfir þær takmarkanir sem verða á réttindunum vegna afplánunar fangelsisdóms, skoðað verður hvernig Mannréttindadómstóll Evrópu hefur dæmt í málum er varða 8. gr. MSE er varða fanga og undir lok meginkaflanna verður litið til takmarkana í íslenskum rétti, þá einkum í samræmi við 71. gr. stjskr. Í sjötta kafla verður lagt mat á það hvort of langt sé gengið í takmörkunum á rétti fanga til friðhelgi einkalífs og fjölskyldulífs.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Sólveig Guðrúnardóttir - MA ritgerð..pdf | 1.02 MB | Lokaður til...07.05.2060 | Heildartexti | ||
Undirrituð yfirlýsing-Skemman.pdf | 313.23 kB | Lokaður |