is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara) Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/29981

Titill: 
 • Lögreglusamþykktir : Lagastoð ákvæða lögreglusamþykkta og reglugerðar um lögreglusamþykktir
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Í ritgerð þessari er fjallað um lögreglusamþykktir, sem eru ein tegund almennra stjórnvaldsfyrirmæla hér á landi og eru settar með sérstakri heimild í lögum nr. 36/1988 um lögreglusamþykktir. Í þessum lögreglusamþykktum og þeirri reglugerð sem ellegar kemur í þeirra stað, er að finna fjölmargar reglur fyrir borgarann um hvernig hann skuli haga málum sínum og eru sumar reglnanna nokkuð íþyngjandi.
  Í ritgerðinni er leitast við að svara þeirri spurningu hvort hinar ýmsu reglur lögreglusamþykkta og reglugerðar um lögreglusamþykktir séu nægilega studdar við heimild í settum lögum í samræmi við lögmætisregluna og eftir atvikum sérstökum lagaáskilnaðarreglum stjórnarskrárinnar eða öðrum meginreglum laga, svo sem réttmætisreglunni og valdgreiningarreglu. Er því í raun um stjórnsýsluréttarlega greiningu á ákvæðunum að ræða. Ekki er fjallað um einstakar ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli ákvæða lögreglusamþykkta eða hvaða reglum stjórnvöld, þá sérstaklega lögreglan, fylgja við beitingu þeirra. Umfjöllunin er takmörkuð við lögreglusamþykktir settar eftir gildistöku gildandi reglugerðar um lögreglusamþykktir og fram til ársloka 2017 og snýr einungis að lagalegu gildi lögreglusamþykktanna sjálfra í ljósi lögmætiskrafna íslensks réttar og annarra meginreglna stjórnsýsluréttar en snýr ekki að refsiréttarlegu gildi þeirra.
  Helstu niðurstöður ritgerðarinnar eru þær að sjaldan hefur reynt á eiginlegt gildi ákvæða lögreglusamþykkta fyrir dómstólum og að því sé erfitt að komast að afgerandi niðurstöðu um gildi einstakra ákvæða. Þó má ljóst vera að sum ákvæði lögreglusamþykkta verði að teljast ólíkleg til að standast kröfu um skýra lagastoð og að í einhverjum tilvikum séu stjórnarskrárvarin réttindi skert án þess að kveðið sé með skýrum hátti á um slíka skerðingu í settum lögum. Líklegt má þó telja að meginþorri ákvæða gildandi lögreglusamþykkta og reglugerðar um lögreglusamþykktir fullnægi þeim lagalegu kröfum sem gerðar eru til slíkra ákvæða, a.m.k. í stjórnsýsluréttarlegum skilningi.
  Athygli vakti einnig hversu mismunandi áherslur sveitarfélög virðast hafa við setningu lögreglusamþykkta hvert í sínu umdæmi, þ.e. að sum þeirra fjarlægja ákvæði sem telja má að séu óþörf eða hafi óskýra lagastoð en önnur setja ný ákvæði sem sum má telja að gangi lengra en leyfilegt er á grundvelli laga um lögreglusamþykktir.

Samþykkt: 
 • 7.5.2018
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/29981


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lögreglusamþykktir.pdf643.77 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Skemman-undirritað.pdf899.14 kBLokaðurYfirlýsingPDF