is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/30009

Titill: 
  • Hugtakið föst atvinnustöð samkvæmt 5. gr. tvísköttunarsamningsfyrirmyndar OECD: Áhrif BEPS aðgerðaráætlunarinnar á hugtakið í alþjóðlegum- og íslenskum skattarétti
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Alþjóðlegur skattaréttur hefur verið talsvert í deiglunni undanfarin ár. Í framkvæmd hefur verið algengt að alþjóðleg fyrirtæki séu ekki með neinar starfsstöðvar, eða aðra álíka áþreifanlega viðveru í mörgum löndum þar sem þau stunda viðskipti. Að sama skapi getur beiting alþjóðlegra skattarréttarreglna leitt til þess að alþjóðlegt fyrirtæki uppfylli ekki skilyrði fyrir skattskyldu í ríki, þrátt fyrir að það sé með starfsstöð eða aðra áþreifanlega viðveru í ríkinu. Mörg alþjóðleg fyrirtæki hafa hagnýtt sér slíkar glufur í reglunum og endurskipulagt viðskiptamódelin sín með ráðstöfunum sem leiða til þess að starfsstöðvar þeirra, eða álíka áþreifanleg viðvera þeirra í öðrum ríkjum, leiði ekki til skattskyldu þeirra eða rýrir skattstofn þeirra í viðkomandi ríkjum. Slíkir veikleikar á alþjóðlegum skattaréttarreglum hafa auðveldað aðilum að misnota skattkerfi ríkja. Við þessari þróun hafa löggjafar ríkja brugðist við með róttækum aðgerðum, annars vegar til þess að endurbyggja traust á skattkerfum, og hins vegar tryggja að tekjur séu réttilega skattlagðar þar sem þær eru upprunnar. Í október 2015 gaf Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) og leiðtogar G20 ríkjanna út lokaskýrslu BEPS aðgerðaráætlunarinnar gegn rýrnun skattstofna og tilfærslu hagnaðar í hinu alþjóðlega skattumhverfi. Aðgerðaráætlunin samanstendur af 15 aðgerðum sem innihalda alþjóðleg eða landsréttarleg úrræði fyrir ríki til þess að sporna við sniðgöngu skatta og tryggja það að tekjur séu skattlagðar þar sem þær eru upprunnar.
    Efni þessarar ritgerðar á rætur sínar að rekja til BEPS aðgerðar nr. 7 þar sem fjallað er um sniðgöngu á reglum um myndun fastra atvinnustöðva í hinu alþjóðlega skattumhverfi. Hugtakið „föst atvinnustöð“ er grundvallarhugtak innan alþjóðlegs skattaréttar sem er skilgreint í 5. gr. tvísköttunarsamningsfyrirmyndar OECD, er skilmerkilega lýst í athugasemdum hennar, ásamt því að vera í þeim tvísköttunarsamningum sem íslenska ríkið hefur gert við önnur ríki. Hugtakið hefur orðið fyrir umsvifamiklum breytingum sem leiða af BEPS aðgerð nr. 7 og er markmið ritsmíðar þessarar að gera grein fyrir helstu ástæðum þess og þeim efnislegu breytingum sem hafa orðið á inntaki hugtaksins eins og það er sett fram í uppfærðu ákvæði 5. gr. nýrrar samningsfyrirmyndar OECD og athugasemdum greinargerðar hennar, sem gefin var út í árslok 2017, ásamt mögulegum áhrifum breytinganna á alþjóðlegan- og íslenskan skattarétt. Þá er einnig áhersla lögð á að gera grein fyrir þeim skilyrðum sem leiða til takmarkaðrar skattskyldu á Íslandi vegna reksturs fastrar starfsstöðvar hér á landi skv. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskattt og skilgreiningu hugtaksins í 3. gr. a. sömu laga, með hliðsjón af mögulegum áhrifum BEPS breytinganna á beitingu og túlkun hugtaksins í íslenskum rétti.

Samþykkt: 
  • 7.5.2018
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/30009


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Meistararitgerð_Föst atvinnustöð í alþjóðlegum- og íslenskum skattarétti_07052018.pdf1.13 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Forsíða_Meistararitgerð_Föst atvinnustöð í alþjóðlegum- og íslenskum skattarétti_07052018.pdf37.7 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing um meðferð lokaverkefnis_undirrituð.jpg568.32 kBLokaðurYfirlýsingJPG