is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/30015

Titill: 
  • Heima er best? Viðhorf og kauphegðun neytenda gagnvart íslenskum hönnunarvörum fyrir heimilið
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Sala á hönnunarvörum fyrir heimilið hefur farið ört vaxandi á Íslandi síðustu ár og nú árið 2018 er salan orðin meiri en fyrir hrun. Nýjar verslanir opna reglulega með úrvali íslenskra og erlendra hönnunarvara og ef litið er til umræðuhópa á samfélagsmiðlum virðist áhugi neytenda einungis vera að færast í aukana. Þrátt fyrir það hefur borið á erfiðleikum meðal vöruhönnuða á Íslandi að koma vörum sínum á markað og segja sumir að það sé mikið strit að vera í þessu starfi hér á landi. Aðrir hafa tekið eftir að Íslendingar virðast sækja meira í íslenskar hönnunarvörur þegar þeir eru í gjafahugleiðingum en kaupa síður handa sér sjálfum.
    Markmið þessarar rannsóknar var að fá innsýn inn í viðhorf og kauphegðun Íslendinga þegar kemur að íslenskum hönnunarvörum fyrir heimilið. Einnig var kannað hvort Íslendingar sýni tilhneigingu til þjóðhverfu þegar kemur að þessum vöruflokki en þjóðhverfa er hugtak yfir það þegar neytendur velja vörur frá sínu eigin landi fram yfir aðrar til að styðja við efnahag og vinnumarkað heimalands síns. Í þeim tilgangi var megindleg rannsókn framkvæmd með hentugleikaúrtaki og var henni dreift á nokkra umræðuhópa á samfélagsmiðlinum Facebook. Alls safnaðist 371 svar við könnuninni.
    Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að alla jafna var viðhorf þátttakenda jákvætt gagnvart íslenskum hönnunarvörum fyrir heimilið. Áhugi var fyrir gjafakaupum í þessum vöruflokki en þátttakendur voru ekki síður líklegir til að vilja kaupa íslenskar hönnunarvörur fyrir sjálfa sig. Þátttakendur voru áhugasamir gagnvart íslenskum hönnunarvörum, fannst þær skemmtilegar og spennandi en tengdu þær ekki sérstaklega við persónuleika sinn eða sjálfsmynd. Ennfremur sýndu þeir litlar líkur á að gera skyndikaup þegar kom að þessum vöruflokki. Að lokum var ljóst að þátttakendur sýndu ekki tilhneigingu til þjóðhverfu þegar kemur að íslenskum hönnunarvörum. Rannsókn þessi var fyrsta skrefið í að gera betur grein fyrir stöðu íslenskra hönnunarvara á sífellt vaxandi markaði og mikið svigrúm er til þess að kanna þetta viðfangsefni betur. Niðurstöðurnar gefa til kynna að íslenskir vöruhönnuðir ættu að eiga góða möguleika á að ná til neytenda því að áhugi þeirra er til staðar og tækifærin leynast víða.

Samþykkt: 
  • 7.5.2018
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/30015


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
MS_ritgerð_ÞórunnArn.pdf1.13 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing_Skemma.pdf340.67 kBLokaðurYfirlýsingPDF