Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/30016
Kulnun er hugtak notað um þann fagaðila sem komin er á síðasta stig vinnustreitu. Tilfinningaleg örmögnun er eitt helsta einkenni kulnunar. Talið er að uppsprettur kulnunar megi finna þar sem kröfur eru miklar, úrræðin fá og tilfinningalegur stuðningur lítill. Sjúkleg streita er hugtak notað í kjölfar áfalla eða kulnunar. Evrópska sjúkdómsflokkunarkerfið (ICD-10) hefur skilgreint sjúklega streitu sem ofurþreytu með þeim hamlandi afleiðingum að frumkvæði dvínar, úthald minnkar ásamt óeðlilegri og ríkari þörf á að hvíla sig. Þeir faghópar sem eiga í hvað mestri hættu á að upplifa streitu í starfi eru þeir sem eru í ýmiskonar umönnunarstörfum. Niðurstöður rannsókna sýna að tengsl eru milli kulnunareinkenna og langvarandi streitu. Handleiðsla er fólgin í því að fagmaður tekur að sér að handleiða annan fagmann í starfi. Handleiðsla er leið til að aðstoða aðila eða hópa til að eflast og þroskast í starfi og bæta starfsímynd fagmannsins. Hún er leið til að efla hæfni einstaklingsins ásamt því að tryggja gæði þjónustunnar sem fyrirtæki sækjast eftir hjá starfsfólki sínu. Handleiðslan aðstoðar fagmanninn að aðskilja fagsjálf og einkasjálf með því að takast á við verkefnin með faglegum aðferðum í stað tilfinningasemi. Rannsóknir benda til þess að faghandleiðsla sporni við kulnun fagaðila og auki starfsánægju þeirra sem hana sækja. Handleiðslan eykur sátt og þjónustulund til skjólstæðinga og hefur jákvæð áhrif á starfsmannaveltu og mannauð. Rannsóknir benda á mikilvægi þess að skoða fremur dýpri undirliggjandi ástæður kulnunar í stað þrískiptu birtingarmynda hennar sem eru 1) sjálfhvarf, 2) skertur persónulegur árangur og 3) tilfinningaleg örmögnun. Talið er að áföll og viðvarandi endurtekin streita í bernsku leiði til vanda í samskiptum á fullorðinsaldri. Þessi óeðlilegu viðbrögð í samskiptum hafa verið skilgreind af fagmönnum sem meðvirk hegðunarmynstur. Birtingarmyndir kulnunar og birtingarmyndir meðvirkni eru ekki ósvipaðar þegar þær eru bornar saman.
Lykilorð: Handleiðsla fagaðila, streita, kulnun, meðvirkni, handleiðsla og ábyrgð handleiðara.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BerglindMagnúsdóttir_FRG261L_BAverkefni1.pdf | 476.43 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
skemman_yfirlýsing_Berglind.pdf | 233.62 kB | Lokaður | Yfirlýsing |