Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/30034
Hér verður sagt frá rannsókn á viðhorfi forstöðumanna almenningsbókasafna á Íslandi og sveitarstjórnarmanna til þess hvert framtíðarhlutverk almenningsbókasafna er í íslensku samfélagi. Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvort samhljómur sé í sýn þessara tveggja hópa og hvort hún samrýmist núgildandi lögum um bókasöfn nr. 120/2012. Notuð var eigindleg rannsóknaraðferð og tekin viðtöl við fimm forstöðumenn almenningsbókasafna víða af landinu og sveitastjóra sömu sveitarfélaga eða fulltrúa þeirra. Því miður svöruðu ekki allir sveitastjórnarmenn beiðni um viðtal svo fulltrúar sveitastjórna í rannsókninni urðu einungis þrír. Rannsóknarspurningarnar sem lágu til grundvallar rannsókninni voru fjórar talsins. Hver er sýn forstöðumanna almenningsbókasafna á núverandi hlutverk og framtíðarhlutverk safnanna í samfélaginu? Hver er framtíðarsýn eigenda safnanna og hvernig telja þeir stöðu þeirra vera í dag? Eru þessir hópar sammála um hvert skal stefna og ef ekki þá af hverju? Samrýmist framtíðarsýnin nýjum lögum um bókasöfn? Spurningarnar mynduðu viðtalsramma en viðtölin voru opin og spurningar því endurskoðaðar eftir hvert viðtal.
Niðurstöðurnar sýna að hóparnir tveir eru sammála um stöðuna í dag og hvert skal stefna. Allir líta til þróunar almenningsbókasafna sem staðar til að vera á og styðja við læsi. Þó má greina mun á mati þeirra á stöðu safnanna þegar kemur að möguleikum í þjónustu. Þannig telja minni söfnin sig ekki geta veitt sömu þjónustu til dæmis hvað viðburði varðar og stærri söfnin. Allir eru bjartsýnir á framtíð almenningsbókasafna og þau njóta velvilja. Þó ekki sé um að ræða aukið fjármagn til starfseminnar er reynt að styrkja hana með því að færa fleiri verkefni til safnanna. Niðurstöður sýna einnig að töluverð breyting verður á samsetningu starfsfólks með breyttu hlutverki almenningsbókasafna þar sem hæfni einstaklinga ræður frekar en menntun hans.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Staður til að vera á. Framtíðarhlutverk almenningsbókasafna.pdf | 708,79 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman_yfirl001.pdf | 442,52 kB | Lokaður |