Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/3007
Opinber einsemd elskandans og þá helst orðræða hans er áberandi í dægurmenningu nútímans. Hér verður leitast við að benda á þversagnarkenndar fígúrur í orðræðu íslenskra ástarsöngva og fjallað um ástina almennt eins og hún birtist í vinsælum dægurlögum. Fyrri rannsóknir verða ræddar, þ.e. uppruni, þróun og áhrif dægurlagsins á aðrar bókmenntagreinar. Reynt verður að svara spurningunni hvort fígúrurnar í orðræðu ástarinnar eigi uppruna sinn í dægurlögum eða lágkúltúrkveðskap eða hvort þær eiga uppruna sinn að rekja annars staðar frá. Einnig verður fjallað um frægt rit Roland Barthes Brotakennd orðræða elskandans og þá helst fígúruhugmynd hans en í inngangi þessa rits heldur hann því fram að í ástarjátningu nútímans sé innbyggð þversögn þ.e. að allir elskendur upplifi ástina með sambærilegum hætti og noti orðræðu hennar með svipuðum fígúrum en elskandinn sé þrátt fyrir það einangraður og einmana í nútímasamfélagi. Ennfremur verður fjallað um hvað einkennir ástina í íslenskum dægurlögum, einkum hvernig vinsælir dægurlagatextar búa um sig í þjóðarsál Íslendinga og hver tengsl orðræðunnar sé við vinsældirnar. Jafnframt verður reynt að skýra ástæður fyrir áberandi fjarveru kvenskálda þegar litið er til vinsælla dægurlagatexta. Birt verða dægurlagatextabrot og þau greind með hliðsjón af áðurnefndri fígúruhugmynd Roland Barthes. Því næst verður reynt að svara spurningunni hvort ástin í íslenskum dægurlögum sé íslensk eða alþjóðleg og einnig hvort ástin í ástarkveðskap Íslendinga sé séríslenskt fyrirbæri. Þá verða birt dæmi um hliðstæðar fígúrur í íslenskum og enskum lagatextum. Fjallað verður um ástina í dægurlögum í tengslum við fornan kveðskap en ástin í dægurlögum á margt sameiginlegt með ástarljóðahefðinni. Þar má finna sameiginleg minni og verða þrjú þeirra rædd þ.e. líkamleg ást, sálufélagar og ástarsjúkdómurinn.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Eyrun_Loa_Eiriksdottir_fixed.pdf | 413.33 kB | Open | Heildartexti | View/Open |