Please use this identifier to cite or link to this item: http://hdl.handle.net/1946/30133
Vaxandi fjöldi fylgdarlausra barna sem sækja um alþjóðlega vernd á Vesturlöndum hefur skapað fjölmargar nýjar áskoranir á meðal fagstétta í velferðarkerfum móttökuríkja. Takmörkuð þekking á aðstæðum barnanna, skortur á verkferlum og óskýr hlutverka- og ábyrgðarskipting í málaflokknum hefur þá leitt til þess að mannréttindi barnanna hafa margoft verið brotin í gegnum tíðina. Félagsráðgjafar tilheyra einni af þeim fagstéttum innan velferðarkerfisins sem gegnir ýmsum lykilhlutverkum í málefnum fylgdarlausra barna, en hugmyndafræðilegur bakgrunnur og faglegar skyldur stéttarinnar gera hana vel til þess fallna til að mæta þörfum þessa hóps. Félagsráðgjafar starfa yfirleitt í töluverðri nálægð við börnin og standa þeim oft hvað næst í löngu og ströngu málsmeðferðarferli. Þeir sinna mikilvægu hlutverki málsvara, veita ýmsan grunnstuðning og eru oft málstjórar í málum sem tengjast barnavernd og velferðarstuðningi. Markmið þessarar ritgerðar er að varpa ljósi á helstu áskoranir sem félagsráðgjafar mæta í starfi með fylgdarlausum börnum og verður leitast við að svara eftirfarandi rannsóknarspurningu: Hverjar eru helstu áskoranir félagsráðgjafa í starfi með fylgdarlausum börnum? Niðurstöður sýna að mál þeirra geta verið þung og erfið og reyna á fagaðilann. Lagalegt umhverfi, skrifræði stofnana og óskýrir verkferlar stangast þá jafnvel á við siðagildi stéttarinnar og torvelda félagsráðgjöfum að veita barni þá þjónustu sem því er fyrir bestu. Þá getur komið upp flókin staða fyrir félagsráðgjafa þegar þeir þurfa að mæta barninu tilfinningalega og skapa grundvöll fyrir traust samhliða því að vera andlit stofnunar og valds. Í ljósi þess að fylgdarlaus börn eru sívaxandi málaflokkur innan félagsráðgjafar er brýnt að stuðla að framgangi rannsókna á sviðinu svo hægt sé að meta betur þarfir barnanna til þjónustu og þróa stefnur, verklagsreglur og áætlanir í samræmi við þær.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
BA-ritgerd_ths200_.pdf | 609.65 kB | Open | Complete Text | View/Open | |
skemman_yfirlysing_ths200.pdf | 364.36 kB | Locked | Yfirlýsing |