is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara) Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/30168

Titill: 
 • Uppgjör afleiðusamninga. Mat á reglum m.t.t. íslenskra dómafordæma
 • Titill er á ensku Settlement of derivative contracts: Principles from Icelandic legal precedents
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Reglur og venjur um framkvæmd afleiðusamninga hafa í gegnum tíðina oft orðið til í kjölfar dómafordæma. Þar sem saga afleiðusamninga á Íslandi er frekar stutt hafa ekki mörg deilumál komið til kasta íslenskra dómstóla. Í kjölfar bankahrunsins árið 2008 varð þó veruleg aukning á málafjölda. Markmið þessarar ritgerðar er að fara yfir helstu dóma sem hafa fallið og finna þær reglur eða leiðbeiningar sem íslenskir dómstólar hafa gefið um uppgjör afleiðusamninga. Skoðaðar eru niðurstöður 35 Hæstaréttardóma frá árunum 2011-2016. Jafnframt er metin niðurstaða samninga sem íslenskir lífeyrissjóðir gerðu við skilanefndir bankanna um uppgjör afleiðusamninga. Þá verður sú aðstaða sem bankarnir voru í eftir yfirtöku Fjármálaeftirlitsins skoðuð út frá niðurstöðum dómsmála.
  Aðalágreiningsefnum samningsaðila er hér skipt í sjö flokka. Helstu niðurstöður eru m.a. að öllum er heimilt samkvæmt lögum að gera afleiðusamninga, framvirkir samningar með hlutabréf teljast ekki flóknir fjármálagerningar, miða skal við gengisskráningu Seðlabanka Íslands í uppgjöri gjaldmiðlasamninga ef önnur gengisskráning er ekki sérstaklega tiltekin og þegar afleiðusamningur er framlengdur með nýjum samningi telst nýi sjálfstæður samningur.
  Bankar eru yfirleitt a.m.k. annar samningsaðilinn í afleiðusamningum og er hlutverk þeirra m.a. að draga úr mótaðilaáhættu. Ólíkar reglur gilda um slit fjármálafyrirtækja og gjaldþrotaskipti annarra fyrirtækja. Þær reglur sem gilda um slit fjármálafyrirtækja eru óskýrari m.t.t. þess hvenær gjaldfellingarheimildir virkjast vegna vanefndar eða fyrirsjáanlegrar vanefndar mótaðila. Hæstiréttur komst m.a. að þeirri niðurstöðu að bankarnir hefðu verið í aðstöðu sem jafna mætti við upphaf gjaldþrotameðferðar m.t.t. sértökukrafna og ISDA-skilmála en ekki SFF-skilmála.
  Fjallað er um viðbrögð bankanna varðandi útistandandi afleiðusamninga við yfirtöku Fjármálaeftirlitsins. Viðbrögðin voru nokkuð ólík en Landsbankinn og Glitnir ákváðu að senda viðskiptavinum sínum tilkynningu varðandi lokun samninganna. Ágreiningur varð um gildi þessara tilkynninga sem m.a. endaði fyrir dómstólum. Tilkynning Landsbankans var mun óljósari en Glitnis og var það niðurstaða Hæstaréttar að túlka yrði þýðingu hennar út frá viðbrögðum hvers viðskiptavinar. Tilkynningu Glitnis mátti að mati Hæstaréttar aðeins túlka á einn veg.
  Niðurstöður samninga lífeyrissjóðanna við skilanefndir bankanna voru áætlaðar og það má leiða líkur að því að niðurstaðan hafi verið sjóðunum mun hagfelldari en dómafordæmi sem reifuð eru í ritgerðinni gáfu tilefni til.

Samþykkt: 
 • 9.5.2018
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/30168


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Skemman_yfirlysing.pdf65.1 kBLokaðurFylgiskjölPDF
MS -ritgerð Arnar Davíð Arngrímsson.pdf917.63 kBOpinnPDFSkoða/Opna