is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/30189

Titill: 
 • Fæðingar frumbyrja á Íslandi 1997–2015
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Fyrsta fæðing konu hefur áhrif á frjósemi hennar, meðgöngur og fæðingar síðar meir. Fyrsta fæðing tekur yfirleitt lengri tíma, meðal annars vegna óskilvirkari samdrátta legs, hægari útvíkkunar og þess að ekki hafi áður teygst á leggöngum og spöng í fæðingu. Með minnkandi frjósemi kvenna á Íslandi og hækkandi meðalaldri frumbyrja hefur hlutfall frumbyrja af öllum fæðandi konum hækkað. Tíðni keisaraskurða fer hækkandi í heiminum og ein af ástæðunum er talin vera hækkandi keisaratíðni hjá frumbyrjum og hækkandi hlutfall kvenna sem hafa áður farið i keisaraskurð. Aðgerðin er ekki án hættu á fylgikvillum og konur sem hafa farið í keisaraskurð eru líklegri til að fara í endurtekinn keisaraskurð. Athyglisvert þykir að á árunum 2000–2011 lækkaði tíðni keisaraskurða á Íslandi þrátt fyrir aukna tíðni framkallaðra fæðinga en á sama tíma hækkaði tíðni keisaraskurða í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Ein af ástæðum þess að ekki hefur tekist að greina hækkun keisaratíðni og ástæður hennar til hlítar er að samræmdri notkun á alþjóðlega viðurkenndu flokkunarkerfi er áfátt. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (e. World Health Organization, WHO) hefur lagt til að Robson flokkunarkerfið verði alþjóðlegur staðall til að fylgjast með og bera saman tíðni keisaraskurða og annarra útkoma innan heilbrigðisstofnana yfir tímabil og á milli stofnana og landa.
  Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og öll gögn fyrir árin 1997–2015 fengust úr Fæðingaskrá Embættis landlæknis. Þýðið var fyrst takmarkað við börn frumbyrja, næst allar frumbyrjur og loks frumbyrjur sem búið var að flokka í Robson flokka. Við flokkun frumbyrja í Robson flokka voru notaðar breytur fyrir fjölburafæðingu, fósturstöðu, ör á legi, upphaf fæðingar og fullar meðgönguvikur.
  Niðurstöður: Alls voru 32766 frumbyrjur flokkaðar í Robson flokka eða 99,8% allra frumbyrja á tímabilinu. Meðalaldur frumbyrja hækkaði á tímabilinu úr 24,5 árum árið 1997 í 26,9 ár árið 2015. Flestar frumbyrjur voru á aldrinum 20–29 ára og hlutfallsleg stærð þess flokks hélst jöfn á tímabilinu eða um 70% fæðinga, frumbyrjum undir tvítugt fækkaði en frumbyrjum yfir þrítugu fjölgaði. Langflestar frumbyrjur voru í Robson flokki 1 eða 71,5% kvenna. Framkölluðum fæðingum frumbyrja fjölgaði og þar af leiðandi stækkaði Robson flokkur 2, hlutfallsleg stærð flokksins var 14,0% allra fæðinga frumbyrja á árunum 1997–2000 en 23,7% 2011–2015. Hlutfallsleg stærð Robson flokks 1 minnkaði úr 75,9% á tímabilinu 1997–2000 í 66,1% 2011–2015. Þegar Robson flokkar 1 og 2 voru skoðaðir sem ein heild lækkaði tíðni keisaraskurða á tímabilinu. Tíðnin í flokki 2 var 36,0% á árunum 1997–2000 en 26,4% 2011–2015. Auk þess lækkaði tíðni keisaraskurða í sitjandafæðingum, flokki 6. Alls hlutu 9,1% frumbyrja sem fæddu um leggöng 3° eða 4° spangarrifu en tíðnin lækkaði marktækt og var 7,24% árin 2011–2015.
  Ályktanir: Þrátt fyrir hækkandi meðalaldur frumbyrja og aukna tíðni framkallaðra fæðinga lækkaði tíðni keisaraskurða á tímabilinu. Hlutfallsleg samanlögð stærð Robson flokka 1 og 2 var um 90% yfir öll tímabilin en tíðni keisaraskurða lækkaði hjá þessum stærsta hópi frumbyrja. Lækkandi keisaratíðni frumbyrja leiðir til færri kvenna með ör á legi sem stuðlar að lægri keisaratíðni fyrir heildina. Frá árinu 2004 hafa allar útkomur fæðinga á Íslandi verið settar fram með 10 flokka kerfi Robson og lækkun í tíðni keisaraskurða hugsanlega ávinningur þess að nota alþjóðlega viðurkennt flokkunarkerfi.

Samþykkt: 
 • 9.5.2018
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/30189


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
olof.asa.bs.faedingar.frumbyrja.pdf1.37 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
yfirlysing 1.pdf920.69 kBLokaðurYfirlýsingPDF