Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/30202
Hér er fjallað um hugmyndir tveggja heimspekinga ólíkra tímaskeiða, þeirra Søren Kierkegaard (1813-1855) og Emmanuel Levinas (1906-1995). Þótt höfundarnir séu sjaldan nefndir í sömu andrá eru vissir þræðir hugmynda þeirra sláandi líkir og tengjast í viðhorfi þeirra til hugtaksins um hinn. Í upphafi er kynnt til sögunnar undirgrein heimspekinnar, fyrirbærafræði, sem Levinas tilheyrði. Þar er lögð áhersla á Martin Heidegger sem var áhrifavaldur á hugsun Levinas. Því næst er fyrirbærafræðilegri hugmynd Levinas um siðfræði sem hina fyrstu heimspeki gerð skil en í verkinu Heild og óendanleika, færir Levinas rök fyrir því að tengslin við Hinn í gegnum samband augliti-til-auglitis sé upphafsstef mannlegrar tilvistar, og í senn siðfræði- og heimspekilegrar hugsunar. Kierkegaard er stundum nefndur faðir tilvistarstefnunnar. Þekktasta framlag hans til heimspekinnar er greinagerð hans um mannlega örvæntingu. Gerð er grein fyrir kerfisbundinni útlistun hans á hugmyndinni um sjálfið og örvæntingu þess sem kemur fram í verkinu Sóttin banvæna. Þar líkir Kierkegaard örvæntingunni við eilífan sjúkdóm sjálfsins sem ekki fæst læknaður nema í huglægum tengslum einstaklingsins við óendanleikann. En verkið skortir nánari skýringu á möguleika lækningar. Hennar er leitað í öðru verki höfundarins, Kærleiksverkum, þar sem Kierkegaard tekur til umfjöllunar hinn kristilega kærleik. Færð eru rök fyrir því að þar sé lækninguna að finna, í kærleik til náungans, sem býður upp á samanburð við heimspeki Levinas. Hjá báðum höfundum er hugtakið um óendanleikann mikilvægt í tengslum við hugtakið um hinn, en samanburður er gerður á notkun heimspekinganna á hugtökunum tveimur. Í lokaorðum er innihald ritgerðarinnar sett stuttlega í samhengi við áskoranir nútímans.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
meginmál.pdf | 395.94 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
StaðfestingSKEMMA.pdf | 1.94 MB | Lokaður | Yfirlýsing |