is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/30227

Titill: 
  • Meðgöngusjúkdómar og fæðingar eldri kvenna. Hefur aldur kvenna áhrif á tíðni fylgikvilla á meðgöngu eða við fæðingu?
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Síðastliðna áratugi hefur meðalaldur mæðra hækkað jafnt og þétt og konur eru almennt að eignast sitt fyrsta barn síðar á ævinni heldur en áður tíðkaðist. Dæmigert er að skilgreina “eldri mæður” sem þær konur sem náð hafa 35 ára aldri. Hærri aldur mæðra hefur verið tengdur við aukna erfiðleika á meðgöngu og í fæðingu. Til dæmis hækkar tíðni keisaraskurða eftir aldri mæðra en ekki er vitað hvers vegna. Rannsókn þessi gengur út á að athuga hvort ákveðnar greiningar, þá sérstaklega lengt 1. og 2. stig fæðingar, sykursýki, meðgöngueitrun, háþrýstingur, fyrirsæt fylgja og sitjandastaða séu algengari hjá eldri konum en yngri. Einnig verður skoðað hvernig tíðnin hefur breyst á tímabilinu 1997-2015 á Íslandi. Markmið þessarar rannsóknar er því að fá betri upplýsingar um hvaða ástæður liggja að baki þessa munar á keisaraskurðatíðni milli yngri og eldri kvenna.
    Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn. Allar upplýsingar um bakgrunnsbreytur móður og ICD-10 kóðar greininganna sem skoðaðar voru fengust úr Fæðingarskrá. Skoðaðar voru allar fæðingar á þessu tímabili, 81.802 talsins. Öll gögn fengust á formi Microsoft Excel en tölfræðiúrvinnsla var unnin í tölfræðiforritinu R. Notast var við logistíska aðhvarfsgreiningu til að reikna gagnlíkindahlutfall fyrir líkur á þessum greiningum eftir aldursbilum. Gagnlíkindahlutfall var bæði reiknað óleiðrétt og leiðrétt.
    Niðurstöður: Tíðni sykursýki og háþrýstings á meðgöngu hækkaði á rannsóknartímabilinu, mest hjá konum 35 ára og eldri. Tíðni sykursýki á meðgöngu jókst frá 0,7% árið 1997 í 13,6% árið 2015 hjá konum sama aldurshópi. Tíðni háþrýstings á meðgöngu jókst frá 3,2% árið 1997 í 8,8% árið 2015 hjá konum á aldrinum 35 ára og eldri. Tíðni annarra greininga breyttist ekki á rannsóknartímabilinu. Meiri líkur voru á öllum greiningum hjá konum á aldrinum 30-34 ára og enn frekar hjá konum á aldrinum 35 ára og eldri miðað við viðmiðunarhópinn, sem skilgreindur var 25-29 ára. Einnig voru minni líkur á greiningum hjá yngri konum miðað við 25-29 ára aldurshópinn. Niðurstöðurnar voru mjög svipaðar eftir að konunum var skipt í frumbyrjur og fjölbyrjur.
    Ályktun: Tíðni sykursýki og háþrýstings á meðgöngu hækkaði á rannsóknartímabilinu hjá öllum aldurshópum, en mest hjá konum 35 ára og eldri. Tíðni annarra greiningar breyttist ekki á rannsóknartímabilinu. Meiri líkur voru á öllum greiningum hjá konum á aldrinum 30-34 ára og enn frekar hjá konum á aldrinum 35 ára og eldri miðað við viðmiðunarhópinn. Einnig voru minni líkur á greiningum hjá yngri konum miðað við 25-29 ára aldurshópinn. Þessi aukna tíðni greiningar hjá eldri mæðrum getur að einhverju leyti skýrt hærri tíðni keisaraskurða meðal þeirra.

Samþykkt: 
  • 11.5.2018
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/30227


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
erla.rut.rognvaldsdottir_eldri.maedur.pdf1.34 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Image.jpg446.93 kBLokaðurYfirlýsingJPG