en English is Íslenska

Thesis (Bachelor's)

University of Iceland > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Please use this identifier to cite or link to this item: http://hdl.handle.net/1946/30236

Title: 
 • Title is in Icelandic Fabry-sjúkdómur. Árangur ensímuppbótarmeðferðar á Íslandi
Degree: 
 • Bachelor's
Abstract: 
 • Abstract is in Icelandic

  Inngangur: Fabry-sjúkdómur er arfgengur efnaskiptasjúkdómur sem stafar af stökkbreytingu í GLA- geni á X-litningi og leiðir til skorts á leysikornsensími, α-galaktósídasa A. Þessi skortur veldur uppsöfnun á glóbótríaósýlceramíði (Gb3) og skyldum glýkósfingólípíðum í frumum sem leiðir til fjöllíffæraskemmda. Mikilvægustu marklíffærin eru nýru, hjarta og æðakerfi heilans. Sjúkdómurinn hefur verið meðhöndlaður með ensímuppbótarmeðferð (ERT) á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar var að kanna árangur meðferðarinnar m.t.t. breytinga á lífefnamerkjum og klínískra matsþátta.
  Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra einstaklinga sem hafa greinst með Fabry-sjúkdóm á Íslandi og fengið hafa ERT. Niðurstöður úr almennum og sértækum lífefnamælingum og myndrannsóknum fyrir marklíffærin svo og upplýsingar um klíníska matsþætti voru fengnar úr rafrænum sjúkraskrám. Sértæk lífefnamerki voru, a-galaktósídasi A (a-Gal A), Lysó-Gb3 og þvag- Gb3. Niðurstöður við upphaf meðferðartímabils (2011 til 2015), á bæði lífefnamerkjum og á mati klínískum myndum voru bornar saman við niðurstöður í síðasta skráða eftirliti sjúklings sem fram hafði farið á tímabilinu 2017 til 2018. Rannsóknarhópnum var skipt í tvennt við úrvinnslu klínískra gagna eftir aldri í yngri og eldri aldurshóp við 50 ára aldur. Jafnframt var skoðuð ensímvirkni a-Gal A og Lysó-Gb3 niðurstöður hjá einstaklingum sem ekki voru á ERT. Gögn voru skráð í Excel tölvuforitið og lýsandi tölfræði og t-próf voru notuð til að skýra og meta samanburð á milli hópa.
  Niðurstöður: Alls hafa 39 einstaklingar greinst með Fabry-sjúkdóm á Íslandi. Ellefu sjúklingar hafa fengið ERT meðhöndlun, þar af einn erlendis. Meðaltímalengd meðferðar á Íslandi reyndist 4,8 ár (bil 1,5 - 6,5 ár). Einn sjúklingur lést á tímabilinu og annar hætti á meðferð vegna vaxandi einkenna. Meðalaldur í yngri hópnum (n=5) var 29,4 ár og í eldri hópnum (n=6) 58,1 ár. Enginn reyndist vera á aldrinum 39 - 52 ára. Marktækar breytingar urðu á lífefnamerkjunum Lysó-Gb3, þvag-Gb3 og kreatínin í blóði. Meðaltal upphafsmælinga Lysó-Gb3 var 105 ng/ml (±15,2) og meðaltal lokamælinga var 11,4 (±5,03), p <0,01. Upphafsmælingar þvag-Gb3 reyndust 239 μmol/mol kreatínín (±190) og meðaltal lokamælinga var 28 μmol/mol kreatínín p <0,01. Kreatínin gildi hækkaði marktækt úr 69,4 μmol/L í 80,4 μmol/L (p = 0,026), en albúmín/kreatínin hlutfall og gaukulsíunarhraði reyndust án marktækra breytinga. Fjórir af fimm einstaklingum í yngri hópnum greindu frá minnkuðum verkjum, hjá þeim hefur hjartastærð haldist stöðug og hvítefnisbreytingar hafa staðið í stað. Í eldri hópnum sáust vaxandi hvítefnisbreytingar í heila hjá fjórum af sex einstaklingum. Minnistruflanir hafa þróast hjá tveim af sex sjúklingum. Hjartaþykknun hafði aukist hjá einum einstaklingi og hjartsláttaróregla greindist hjá tveimur á tímabilinu. Hjá einstaklingum sem ekki eru á ERT var marktækur munur milli karla og kvenna, bæði virkni a-Gal A og Lysó-Gb3 (p<0,01).
  Ályktanir: Sértæk lífefnamerki (Lysó-Gb3 og þvag-Gb3), sem mælikvarði á árangur ERT lækkuðu marktækt á tímabilinu. Vísbendingar eru um að ERT hafi jákvæð áhrif á líðan hjá yngri einstaklingum og bæti lífsgæði. Í eldri hópnum sáust merki um áframhaldandi framgang sjúkdómsins í marklíffærum. Vegna smæðar þýðisins, skorts á samanburðarhópi og skamms meðferðartíma er rétt að gæta varúðar við mat á klínískum árangri meðferðarinnar. Reglubundið eftirlit og mat á meðferðarþörf er nauðsynlegt í Fabry-sjúkdómi.

Accepted: 
 • May 11, 2018
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/30236


Files in This Item:
Filename Size VisibilityDescriptionFormat 
Jon.Karl.Axelson.Njardvik.Fabry.Sjukdomur.pdf3.38 MBOpenComplete TextPDFView/Open
32240357_10211616523265673_6837057751584079872_n.jpg57.18 kBLockedYfirlýsingJPG