is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/30249

Titill: 
 • Listeriosis á Íslandi. Janúar 2001 - apríl 2018
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Listeria monocytogenes er sjaldgæfur en alvarlegur sýkill í mönnum, þá sérstaklega meðal áhættuhópa. Bakterían er matarborinn sýkill sem veldur sjúkdóminum listeriosis í mönnum. Hún er harðgerð og finnst víðs vegar í jarðvegi og vatni, í meltingarvegi dýra og í allt að 5 prósent heilbrigðra fullorðinna manna. Hún hefur verið einangruð úr ýmsum matvælum, meðal annars úr mjólk, mjúkum ostum, ís, hráu kjöti, hráum fiski og skelfiski, grænmeti og tilbúnum mat. Sjúkdómsmyndir eru allt frá uppköstum og niðurgangi meðal heilbrigðra fullorðinna til lífshættulegra sjúkdóma, heilahimnubólgu og blóðsýkinga meðal ónæmisbældra einstaklinga og fyrirburafæðingar eða fósturláts meðal þungaðra kvenna. Sýkingar af völdum L. monocytogenes eru oft alvarlegar, þá sérstaklega meðal áhættuhópa. Dánartíðni af völdum listeriosis er almennt talin vera á bilinu 20-40%. Í eldri rannsókn sem rannsakaði faraldsfræði listeriosis á Íslandi á árunum 1978 til 2000 reyndist dánartíðnin vera 33%.
  Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn, lýsandi faraldsfræðileg rannsókn sem náði til jákvæðra ræktana fyrir L. monocytogenes frá 1. janúar 2001 til 20. apríl 2018. Almennum upplýsingum um aldur, kyn, nýgengi og dánartíðni var safnað. Þá voru tilfelli flokkuð eftir því hvort þau töldust vera burðarmálstilfelli (e. perinatal case) eða tilfelli utan burðarmáls (e. non - perinatal case). Tilfelli voru einnig flokkuð eftir því hvort um blóðsýkingu eða miðtaugakerfissýkingu var að ræða. Þá voru sjúklingar flokkaðir eftir áhættuhópum. Upplýsingar um undirliggjandi sjúkdóma, gæði meðferðar út frá sýklalyfjagjöf og meðferðarlengd og legudaga voru skráðar.
  Niðurstöður: Alls voru 27 jákvæðar ræktanir fyrir L. monocytogenes á rannsóknartímabilinu, 13 karlar og 14 konur, og var miðgildi aldurs við greiningu 73 ár. Sýkingarnar 27 voru flokkaðar í tvö burðarmálstilfelli (8%) og 23 tilfelli utan burðarmáls (92%) samkvæmt skilgreiningum. Af tilfellunum utan burðarmáls voru 17 blóðsýkingar en sex voru miðtaugakerfissýkingar. 22 sjúklingar (81%) töldust ónæmisbældir og einungis einn sjúklingur (4%) taldist ekki vera í áhættuhóp. Nýgengi listeriosis á rannsóknartímabilinu var 4,5 tilfelli á hverja milljón íbúa að meðaltali á ári og greindust 44% tilfellanna í ágúst - október. Alls fengu 88% sjúklinganna fullnægjandi upphaflega meðferð en 71% þeirra fengu fullnægjandi endanlega meðferð. Dánartíðni eftir 30 daga reyndist vera 22%.
  Ályktanir: Nýgengi listeriosis lækkaði úr 6,9 tilfellum í 4,5 tilfelli á hverja milljón íbúa að meðaltali á ári. Þá lækkaði dánartíðni úr 33% í 22%. Hátt hlutfall fullnægjandi meðferðar í upphafi skýrist af fjölda sýklalyfja sem sjúklingar fengu í upphafi. Lægra hlutfall fullnægjandi endanlegrar meðferðar skýrist af strangari kröfum um skammtastærðir og meðferðarlengd. Athyglisverðast er að sjá mikla fækkun burðarmálstilfella milli rannsókna, sem og líkindi með árstíðarbundnum sveiflum sjúkdóms, ástæður beggja eru þó enn ókunn. Rannsókn þessi gefur heildstæðari sýn á faraldsfræði listeriosis á Íslandi og er í beinu framhaldi af eldri rannsókn svipaðs efnis frá árinu 2002.

Samþykkt: 
 • 11.5.2018
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/30249


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Einar.Fridriksson_Listeriosis.pdf965.08 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Skemman yfirlýsing.pdf78.84 kBLokaðurYfirlýsingPDF