is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/30250

Titill: 
 • Þátttaka og afstaða starfsfólks Landspítala til bólusetninga gegn inflúensu
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Bólusetningar eru ein merkilegasta uppgötvun læknavísinda. Þær hafa dregið úr dauðsföllum af völdum smitsjúkdóma sem eru meðal helstu dánarorsaka í heiminum. Inflúensuveiran tekur árlegum breytingum og því er þörf á endurteknum bólusetningum. Heilbrigðisstarfsmenn sem
  sinna sjúklingum eru meðal þeirra sem ráðlagt er að þiggja árlegar inflúensubólusetningar. Þátttaka heilbrigðisstarfsfólks í þeim er ekki viðunandi miðað við leiðbeiningar sem eru gefnar út af heilbrigðisstofnunum. Markmið rannsóknarinnar var tvíþætt. Í fyrsta lagi að kanna þátttöku starfsmanna Landspítala í inflúensubólusetningum með tilliti til ýmissa bakgrunnsþátta. Í öðru lagi að meta afstöðu starfsmanna og nema á Landspítala til inflúensubólusetninga.
  Efni og aðferðir: Mannauðssvið Landspítala keyrði saman lista með virkum starfsmönnum við lista bólusettra við inflúensu á Landspítala og bakgrunnsþættir fengnir úr þeim. Spurningalisti um afstöðu til
  inflúensubólusetninga samanstóð af sjö spurningum ásamt spurningum um bakgrunnsþætti. Hann var sendur á fjögur úrtök: Starfsmenn Landspítala (n = 1000), starfsmenn Sólar ehf. sem vinna á Landspítala (n = 25), læknanema Háskóla Íslands (n = 142) og hjúkrunarfræðinema Háskóla Íslands (n = 412). Spurningalistinn var sendur út með kannanakerfinu REDCap. Notast var við kí-kvaðrat og tvíkosta lógístíska aðhvarfsgreiningu. Tölfræðiforritið R var notað við úrvinnslu.
  Niðurstöður: Þátttaka starfsmanna á Landspítala síðustu 10 ár í inflúensubólusetningum hefur farið vaxandi frá og með árinu 2010 til ársins 2017. Þátttaka árið 2017 var 63%. Þátttaka kvenna hefur verið
  betri en þátttaka karla (p < 0,001). Starfsmenn eldri en 60 ára eru með hærra þátttökuhlutfall en yngri hópar (p < 0,001). Mesta aukning meðal aldurshópa er hjá 20-29 ára. Þátttökuhlutfall starfssviða hefur í flestum tilvikum aukist en mismikið. Alls bárust 477 svör úr spurningalista sem er 30,1% svarhlutfall.
  Svör við spurningalista sýna að starfsmenn Landspítala séu mjög jákvæðir gagnvart bólusetningum gegn inflúensu.
  Ályktanir: Þátttaka í inflúensubólusetningum meðal starfsmanna á Landspítala hefur aukist ár frá ári sem eru afar góðar niðurstöður og gefa von um enn betri árangur á næstu árum. Með því að auka þátttöku meðal starfsmanna mætti líklega koma í veg fyrir smit til sjúklinga og draga verulega úr útbreiðslu inflúensu á Landspítalanum. Afstaða starfsmanna spítalans til inflúensubólusetninga er í langflestum tilfellum mjög jákvæð sem gefur til kynna að þar séu sóknarfæri til að bæta þátttöku þeirra enn frekar. Með fræðslu og góðu aðgengi að bóluefni er líklegt að hægt sé að auka verulega hlutfall bólusettra starfsmanna sem mun vafalaust skila árangri og gagnast bæði sjúklingum og starfsmönnum.

Samþykkt: 
 • 11.5.2018
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/30250


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Helena.X.Johannsdottir_Thatttaka.og.afstada.starfsfolks.landspitala.til.bólusetninga.gegn.influensu.pdf2.25 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
helena.BS.yfirlysing.pdf463.02 kBLokaðurPDF