is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/30260

Titill: 
 • Meðfæddir gallar í miðtaugakerfi greindir á fósturskeiði og eftir fæðingu á Íslandi 1992-2016
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Gallar í miðtaugakerfi (MTK) eru alvarlegir fæðingargallar sem sumir samræmast ekki lífi en aðrir geta valdið ævilangri fötlun. Þekktir áhættuþættir eru t.d. sykursýki, offita og fólínsýruskortur móður og notkun flogaveikilyfja á meðgöngu. Tíðni þeirra er talin geta verið allt að 1% og eru gallar í MTK því með algengari fæðingargöllum sem greinast. Nýgengi þeirra meðal fóstra og barna á Íslandi hefur verið rannsakað fyrir tímabilið 1972-1991 og var þá hæst 2,22 tilfelli fyrir hverjar 1000 fæðingar á tímabilinu 1987-1991. Þessi rannsókn miðaði að því að meta nýgengi galla í MTK fyrir næsta 25 ára tímabil, 1992-2016, ásamt því að rannsaka áhættuþætti meðal mæðra og afdrif fóstra og barna.
  Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og fengust upplýsingar um öll tilfelli þar sem galli í MTK greindist hjá fóstri eða barni árin 1992-2016 úr ómskoðunarskýrslum Fósturgreiningardeildar Landspítala og Fæðingaskrá embættis landlæknis. Frekari upplýsinga um hvert tilfelli var aflað úr sjúkraskrám móður og barns. Rannsóknartímabilinu var skipt upp í fimm tímabil og var lýsandi tölfræði notuð til að reikna heildarnýgengi ásamt nýgengi meðal nýbura fyrir hvert tímabil sem og tíðni ákveðinna breyta.
  Niðurstöður: Alls greindust 206 fóstur eða börn með galla í MTK á tímabilinu. Flest tilfellin (n = 49) voru flokkuð sem vatnshöfuð en fæst (n = 10) sem samhvelun. Heildarnýgengi var hæst 2,44 tilfelli á hver 1000 fædd börn á tímabilinu 2012-2016 en nýgengi meðal nýbura var hæst 0,80 tilfelli á hver 1000 fædd börn á tímabilinu 1992-1996. Rúmlega 89% tilfellanna greindust á fósturskeiði og þar af greindust 92% fyrir 22 vikna meðgöngu. Meðallengd meðgöngu í vikum við greiningu heilaleysis styttist marktækt úr 19,3 vikum á tímabilinu 1992-1996 í 11,6 vikur á tímabilinu 2012-2016 (p = 0,006). Fyrir þau tilfelli sem greindust eftir fæðingu voru hlutfallslega færri mæður, eða 41%, sem tilheyrðu heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins, samanborið við 72% fyrir tilfelli sem greindust á meðgöngu (p = 0,006). Meirihluti meðganga endaði með meðgöngurofi, eða 71,8%, og ef einungis voru skoðuð tilfelli sem greindust á meðgöngu enduðu 80,4% þeirra með meðgöngurofi. Tíðni þekktra áhættuþátta meðal mæðra var lág fyrir utan hátt hlutfall mæðra með offitu á tímabilinu 2012-2016, eða 23%. Meirihluti lifandi fæddra barna með galla í MTK var lagður inn á Vökudeild eftir fæðingu og fóru mest 50% í aðgerð vegna gallans á fyrsta aldursári á tímabiliinu 1997-2001. Af 57 lifandi fæddum börnum með galla í MTK voru 37 eða 65% enn á lífi þegar rannsóknin fór fram.
  Ályktanir: Aukin þjálfun meðal heilbrigðisstarfsfólks og bættur tækjabúnaður hefur skilað auknum fjölda greininga á meðgöngu miðað við fyrri rannsókn. Greining heilaleysis er nú að meðaltali við 12 vikur í stað 19 vikna áður sem er jákvæð þróun þar sem lífslíkur eru engar. Oftast fer í kjölfarið fram meðgöngurof, en aðgerðin er einfaldari og tíðni fylgikvilla lægri við 12 vikna meðgöngu samanborið við 20 vikna. Í fámennum heilbrigðisumdæmum eru framkvæmdar færri ómskoðanir sem getur leitt til minni sérhæfingar við greiningu fósturgalla. Það getur skýrt hvers vegna tilfelli sem greinast eftir fæðingu eru líklegri til að vera frá heilbrigðisumdæmum utan höfuðborgarsvæðisins.

Samþykkt: 
 • 11.5.2018
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/30260


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Meðfæddir gallar í MTK á Íslandi 1992-2016.pdf4.96 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
yfirlýsing.pdf199.98 kBLokaðurYfirlýsingPDF