is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/30263

Titill: 
  • Íslensk enska án íslensks hreims: Könnun á enskuframburði íslenskra barna í 3. bekk grunnskóla í ljósi breyttrar stöðu ensku á Íslandi
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Þessi ritgerð er lögð fram til B.A.-prófs í almennum málvísindum við Háskóla Íslands. Meginviðfangsefni hennar eru þær breytingar sem orðið hafa á stöðu ensku á Íslandi og enskukunnáttu íslenskra barna í kjölfar samfélagsbreytinga síðustu ára. Hér verður fjallað um stöðu ensku á Íslandi með tilliti til skilgreininga á hugtökunum öðru máli og erlendu máli. Enska á Íslandi hefur opinberlega stöðu erlends máls en stendur nær því að vera annað mál í samfélaginu. Eins og mikið hefur verið rætt er enskt máláreiti áberandi á mörgum sviðum íslensks samfélags um þessar mundir. Enska er notuð í háskólum, atvinnulífinu og ferðamannaiðnaðinum og er auk þess það mál sem er mest notað á samfélagsmiðlum, í tölvuleikjum og öðru afþreyingarefni. Rannsóknir sýna að íslensk börn geta mörg hver skilið og tjáð sig að einhverju leyti á ensku áður en þau hefja formlegt enskunám í skóla. Í þessari ritgerð er reynt að komast að því hvort enskt máláreiti sé nægilega mikið til þess að íslensk börn nái tökum á framburði á ensku án einkenna íslensks hreims. Hreimur kemur fram vegna yfirfærslu hljóða, hljóðkerfisreglna, áherslumynsturs eða tónfalls úr málkerfi móðurmáls á annað mál. Hljóðkerfi þróast snemma á máltökuskeiði og það getur því verið erfitt að tileinka sér nýtt hljóðkerfi eftir að máltökuskeiði lýkur og jafnvel fyrr. Þegar við tölum tungumál sem ekki er móðurmál okkar er algengt að við yfirfærum ýmis atriði úr málkerfi móðurmálsins yfir á framburð annars máls eða erlends máls.
    Í tengslum við þessa ritgerð var framkvæmd könnun sem tók til enskuframburðar sex átta til níu ára íslenskra barna sem ekki höfðu hafið formlegt nám í ensku. Prófuð voru tvö einkenni íslensks hljóðkerfis, aðblástur og afröddun hljómenda, og skoðað hvort þau einkenni væru til staðar í framburði barnanna á ensku. Þessi tvö framburðareinkenni koma fram vegna virkra reglna í íslensku hljóðkerfi en eru sjaldgæf hljóðferli í málum heims. Það er því eitt einkenni íslensks hreims þegar þeim hljóðkerfisreglum er ranglega beitt í framburði á ensku. Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að framburður íslenskra barna á ensku sé að meirihluta til laus við þessi einkenni íslensks hreims. Þessar niðurstöður gefa til kynna að íslensk börn byrji snemma á máltökuskeiði að tileinka sér ensku úr umhverfinu og nái með þeim hætti tökum á ensku hljóðkerfi að einhverju leyti óháð íslensku hljóðkerfi. Þar sem aðeins sex börn voru prófuð ber að taka niðurstöðum könnunarinnar með fyrirvara en þær gefa þó einhverja vísbendingu um enskuframburð íslenskra barna á þessum aldri.

Samþykkt: 
  • 11.5.2018
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/30263


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
New File 05.11.2018 .pdf818.59 kBLokaðurYfirlýsingPDF
BryndísBergþórsd.BA.2018.pdf1.66 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna