Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/30265
Samkvæmt ítalska heimspekingnum Giorgio Agamben (f. 1942) endurspeglar verkið Réttarhöldin eftir Franz Kafka (1883-1924) lífpólitískan veruleika alræðissamfélagsins. Agamben hefur gagnrýnt lífpólitískar aðgerðir yfirvalda fyrir að vega að frelsi manneskjunnar. Í ritgerðinni eru kenningar hans um undantekningarástand reifaðar og felldar að lagaveruleikanum í Réttarhöldum Kafka. Þar ríkir undantekningarástand sem er löglaust rými innan laganna og getur af sér homo sacer, réttlausan einstakling eins og Jósef K. í Réttarhöldunum.
Agamben telur lausn undan lífpólitík vera að finna í messíanisma og hefur nýtt sé hann sem hugmyndafræðilega undirstöðu. Að hans mati draga sögur Kafka upp dökka mynd af lífi í alræðishyggjusamfélagi en þó eru þar undirliggjandi mótsagnir sem skapa möguleika á messíanískum hvörfum sem ljá sögunni nýja merkingu. Samfara lífpólitískri greiningu á skáldsögunni er leitast við að túlka hana með hliðsjón af messíanisma og ígrundað hvort hún innihaldi messíanísk hvörf og þá hvort finna megi messíaníska von í Réttarhöldunum.
Messíanismi Agambens er róttæk og gagnrýnin heimspeki sem kallar manneskjuna til ábyrgðar. Hið messíaníska ætlunarverk er að svipta hulunni af undantekningunni sem orðin er að reglu og koma á raunverulegu undantekningarástandi. Í lok ritgerðar er bent á hvernig lífpólitískur veruleiki Réttarhaldanna kallast á við samtíma 21. aldar. Á hið nakta líf Jósefs K. sér hliðstæðu í berskjöldun nútímamanneskjunnar? Þá eru færð rök fyrir því að messíanísk túlkun á verkinu eigi erindi við nútímalesendur, messíaníska vonin vinni gegn tómlæti og sé forsenda gagnrýnnar hugsunar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA MEB .pdf | 286,6 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlýsing.jpg | 2,15 MB | Lokaður | Yfirlýsing | JPG |