Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/30278
Inngangur: Geðrofssjúkdómar eru sjúkdómar sem einkennast af geðrofi. Svokölluð geðrofslyf eru notuð í meðferð við geðrofssjúkdómum. Með tilkomu nýrra geðrofslyfja hafa komið fram ýmsar aukaverkanir s.s. þyngdaraukning og aukning á efnaskiptavillu. Með efnaskiptavillu er átt við samansafn einkenna sem eru lýsandi fyrir einstaklinga sem eru í aukinni áhættu á að þróa með sér sykursýki 2 og hjarta- og æðasjúkdóma. Til að greinast með efnaskiptavillu þarf að uppfylla 3 af 5 fyrirfram gefnum skilyrðum. Þau geðrofslyf sem eru þekktust fyrir að valda þessum aukaverkunum eru olanzapine og clozapine.
Markmið rannsóknarinnar er að kanna algengi áhættuþátta fyrir efnaskiptavillu hjá þjónustuþegum Laugarássins og kanna hvort efnaskiptavilla tengist ákveðinni lyfjameðferð. Að lokum að skoða hvort áhættuþættir efnaskiptavillu séu algengari hjá fólki með geðrofssjúkdóm en hjá hinu almenna þýði. Efniviður og aðferðir: Rannsóknin stóð öllum núverandi þjónustuþegum Laugarássins sem taka inn geðrofslyf til boða. Þátttakendur voru 33. Tekið var þversnið af hópnum og farið yfir spurningarlista, tekin lífsmörk, blóðprufur, lyfjasaga og skoðaðar fyrri mælingar. Niðurstöður voru bornar saman við samanburðarhóp. Upplýsingar voru skráðar í Excel. Við tölfræðilega úrvinnslu var notast við tölfræðiforritið R og Excel. Niðurstöður: Karlar voru 78,8% þátttakenda. Fimm af 33 eða 15,2% greindust með efnaskiptavillu. Að auki voru níu manns sem uppfylltu 2 skilyrði og eru því á mörkum greiningar. 42% voru með mittisummál yfir viðmiðunarmörkum, 21% með þríglýseríð, 15,6% með HDL-kólesteról og 3,45% glúkósa yfir viðmiðunarmörkum. Þá voru 51% með of háan blóðþrýsting. Flestir þátttakenda tóku geðrofslyfið clozapine eða 30,3% þátttakenda. Af þeim 5 sem greindust með með efnaskiptavillu voru 4 á clozapine. Átta af 10 clozapine notendum voru skilgreindir með offitu samkvæmt BMI skalanum. Þeir þátttakendur sem voru á clozapine voru einnig með lengstu mittisummálin, bæði hjá körlum og konum.
Marktækur munur var á rannsóknarhópnum og samanburðarhóp m.t.t. blóðþrýstings hjá báðum kynjum, HDL-kólesteróls (p=0,043) hjá körlum og BMI (p=0,012) og þríglýseríða (p=0,022) hjá konum.
Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að efnaskiptavilla og áhættuþættir hennar séu algengir hjá þjónustuþegum Laugarássins. Annarrar kynslóðar geðrofslyfið clozapine virðist hafa sterka tengingu við efnaskiptavillu og þyngdaraukningu. Einnig virðist vera marktækur munur á þátttakendum rannsóknarinnar og samanburðarhópi hvað varðar ákveðna þætti. Þetta er í samanburði við aðrar rannsóknir. Niðurstöðurnar sýna að brýn þörf er á að fylgjast vel með heilsufari fólks með geðrofssjúkdóma, sérstaklega í tengslum við ákveðna lyfjameðferð.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BS Ritgerð - Rosa Harðardottir.pdf | 722,19 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Doc 10 May 2018, 19-34.pdf | 423,67 kB | Lokaður | Yfirlýsing |