Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/30286
Viðfangsefni ritgerðarinnar er að kanna auglýsingastofur í dag í samanburði við árið 1988 og hvort breyting hafi orðið á starfsemi þeirra, einkum með tilkomu samfélagsmiðla. Til að útskýra starfsemi auglýsingastofa er fjallað um markaðssetningu í víðum skilningi út frá tilgangi markaðsstjórnunar og þeirra tækja sem markaðsstjóri hefur til að beita, m.a söluráðanna sjö. Í ljósi viðfangsefnis ritgerðarinnar er rýnt frekar í þriðja söluráðinn sem eru kynningar, en hann er náskyldur tæki innan markaðsfræðinnar sem kallast kynningarráðar. Undirflokkar kynningarráða eru átta en einn þeirra er eitt helsta tæki auglýsingastofa, þ.e. auglýsingar. Farið er yfir helsta hlutverk auglýsinga innan markaðssetningar og birtingarmyndir þeirra í dag. Þá er saga auglýsinga á Íslandi rakin í stórum dráttum, allt frá fyrstu birtingarmyndum þeirra, sem voru tilkynningar, til helstu breytinga sem átt hafa sér stað á sviði þeirra en það er stafræn tækni. Kannaðir eru helstu möguleikar sem stafræn tækni hefur upp á að bjóða varðandi samskipti fyrirtækja.
Ein stærsta þróun á sviði stafrænnar markaðssetningar eru samfélagsmiðlar. Þróun þeirra er hröð þar sem fleiri miðlar bætast sífellt við og vettvangur þeirra breytist með hverju ári. Skiptar skoðanir eru um áhrif samfélagsmiðla á markaðsstarf og markaðsfræði almennt. Samfélagsmiðlar eru neytendaskapað efni þar sem notandi miðilsins gefur upp persónuupplýsingar um sjálfan sig, hvort sem það er meðvitað eða ekki. Eftirlit og persónuvernd einstaklinga hefur ekki haldið í við hraða þróun samfélagsmiðla, en á árinu 2018 mun ný persónuverndarlöggjöf taka gildi á Íslandi. Gera má ráð fyrir að hún muni hafa áhrif á starf auglýsingastofa að einhverju leiti. Hugtakið auglýsingastofa er kannað og hvernig helstu auglýsingastofur á markaði skilgreina sjálfar sig á heimasíðum sínum. Kannaður er helsti munur á, annars vegar starfsemi Sambands íslenskra auglýsingastofa, SÍA, og hins vegar Samtaka íslensks markaðsfólks, ÍMARK. Þá er staða auglýsingastofa árið 1988 reifuð og borin saman við stöðu hennar í dag að mati framkvæmdarstjóra Íslensku auglýsingastofunnar, Hjalta Jónssonar.
Á síðustu þrjátíu árum hefur starfsemi auglýsingastofa í grundvallaratriðum lítið breyst. Kynningaraðferðir hafa bæst við í verkfærakistu markaðsstjórnenda og auglýsingastofa, einkum stafræn tækni og samfélagsmiðlar. Framleiðni á auglýsingamarkaði hefur aukist til muna á þessum tíma, þar sem aukin krafa er um hraða vinnslu verkefna auglýsingastofanna. Fleiri verkefni verða til á styttri tíma en áður. Samskipti og samvinna auglýsingastofa og auglýsenda virðist betri nú en áður var. Auglýsendur nútímans skilja betur mikilvægi markaðsstarfs og að auglýsingar eru skilaboð sem fyrirtæki sendir frá sér til viðskiptavina sinna.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Auglýsingastofur aftur til fortíðar - Lokaskil -FINAL.pdf | 1.07 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Skemman - Bryndís María 14. maí 2018.pdf | 54.85 kB | Lokaður | Yfirlýsing |