Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/30290
Inngangur: Athyglisbrestur með ofvirkni (ADHD) er algengasta hegðunarröskunin sem greind er hjá börnum en einkenni geta verið hamlandi fram á fullorðinsár og jafnvel út ævina. Samkvæmt Landlækni er algengið 3-5% meðal fullorðinna. ADHD getur haft mikil áhrif á líf fólks og þessir einstaklingar glíma oft við aðrar fylgiraskanir. Lyfjanotkun við ADHD á Íslandi er mun meiri en á hinum Norðurlöndunum. Á Landspítala er starfandi þverfaglegt ADHD teymi sem sér um greiningu og meðferð við ADHD hjá fullorðnum. Markmið þessarar rannsóknar er að meta árangur lyfjameðferðar sem veitt er af teyminu.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra einstaklinga 18 ára og eldri sem komu í fyrsta viðtal til læknis hjá ADHD teymi Landspítala 2015-2017 og þáðu lyfjameðferð. Þeim var fylgt eftir til 18. apríl 2018. Sjúklingar sem höfðu áður verið í meðferð hjá teyminu eða voru á lyfjameðferð við ADHD þegar þeir komu í teymið voru undanskildir. Alls voru 211 einstaklingar sem uppfylltu skilyrði rannsóknarinnar. Upplýsingar um einkenni og líðan fyrir og eftir meðferð fengust úr svörum sjúklinga við fjórum spurningalistum, þ.e. ADHD hegðunarmatskvarða, DASS, CORE og QOLS. Einnig voru skráðar upplýsingar um lyfjameðferð og líkamsmælingar.
Niðurstöður: Af þeim 211 sem uppfylltu skilyrði rannsóknarinnar voru 55% karlar og 45% konur. Um 53% voru með greinda fylgiröskun og þar af voru kvíðaröskun og lyndisröskun algengastar. Töluverð vöntun var á svörum við spurningalistum eftir meðferð eða 42-44%. Alls voru 144 einstaklingar sem luku meðferð hjá teyminu en 67 einstaklingar féllu úr meðferð. Upphafsmælingar þessara tveggja hópa voru skoðaðar og marktækur munur var á hvatvísi/ofvirkni (p=0,013) og þunglyndi (p=0,040). Hvatvísi/ofvirkni reyndist vera forspárþáttur fyrir það að falla úr meðferð með OR=0,96 (p=0,015). Marktækur munur var á öllum geðmælingum fyrir og eftir meðferð með p < 0,001 fyrir hverja breytu. Fyrir ADHD einkenni var áhrifastærð Cohens d 2,47 fyrir athyglisbrest og 1,25 fyrir hvatvísi/ofvirkni. Að meðaltali lækkaði t skor þessara tveggja breyta um 25 ± 10 og 13 ± 11 stig eftir meðferð. Áhrifastærð fyrir lífsgæði var 1,04 og jukust þau um 13 ± 12 eftir meðferð. Af DASS var áhrifstærðin hæst 1,27 fyrir streitu en lægst 0,67 fyrir kvíða. Samsvarandi lækkun fyrir þessar breytur var 11 ± 8 og 4 ± 6. Af CORE var stærðin hæst 1,35 fyrir heild án áhættu en lægst 0,53 fyrir áhættu. Fyrir meðferð voru 99% yfir klínískum viðmiðunarmörkum fyrir jákvæða skimun fyrir athyglisbrest og 67% fyrir hvatvísi/ofvirkni. Af þeim sem luku meðferð færðust 79% undir mörkin fyrir athyglisbrest og 54% fyrir hvatvísi/ofvirkni. Jákvæð fylgni var á milli allra breyta af ADHD hegðunarmatskvarða, DASS og CORE. Sömuleiðis var fylgni milli aukinna lífsgæða og lækkunar í einkennum. Ekki var sterk fylgni milli athyglisbrests og hvatvísi/ofvirkni. Hjá einstaklingum sem höfðu fleiri geðgreiningar en ADHD var meðferðarárangur marktækt meiri fyrir DASS og CORE en ekki var marktækur munur á meðferðarárangri fyrir athyglisbrest, ofvirkni/hvatvísi og lífsgæði. Ekki var marktækur munur á meðferðarárangri eftir kyni.
Ályktun: Þeir sem ljúka meðferð í ADHD teymi ná miklum árangri sem felst í minnkun einkenna og aukningu lífsgæða. Meðferðarárangur var meiri hjá þeim sem glímdu einnig við aðrar fylgiraskanir. Þessar niðurstöður styðja við lyfjanotkun við ADHD hjá fullorðnum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
solveig.bjarnadottir_ADHD.i.fullordnum.LSH.2015.2017.pdf | 1,12 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing til Skemmunnar.pdf | 342,55 kB | Lokaður | Yfirlýsing |