is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/30293

Titill: 
 • Auka SSRI- og SNRI geðdeyfðarlyf blæðingu eftir kransæðahjáveituaðgerð?
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Þunglyndi er algengt vandamál hjá sjúklingum sem gangast undir kransæða-hjáveituaðgerð. SSRI (selective serotonin reuptake inhibitors) og SNRI (serotonin noradrenaline reuptake inhibitors) geðdeyfðarlyf eru algengastu lyfin sem beitt er við þunglyndi, en fjöldi rannsókna hefur sýnt að lyfin geta aukið blæðingu eftir ýmsar tegundir skurðaðgerða. Áhrif þessara lyfja á blæðingu eftir opnar hjartaaðgerðir eru þó minna rannsökuð og niðurstöður verið misvísandi. Tilgangur þessarar rannsóknar var því að kanna áhrif SSRI/SNRI lyfja á blæðingu eftir kransæðahjáveitu og hvort ástæða sé til að hætta töku þeirra fyrir slíka aðgerð.
  Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til 1237 sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala á tímabilinu 2007-2016. Af þeim voru 97 (7,8%) sjúklingar sem tóku SSRI/SNRI lyf fyrir aðgerð og voru þeir bornir saman við 1140 sjúklinga í viðmiðunarhópi (V-hópi). Bráðaaðgerðum, sjúklingum sem blæddu >5L og þeim sem gengust undir endurhjáveituaðgerð var sleppt. Skráðar voru upplýsingar um blæðingu í brjóstholskera á fyrstu 24 klst. eftir aðgerð, magn blóðhlutagjafa og enduraðgerðir vegna blæðingar. Einnig voru skráðir minniháttar og alvarlegir fylgikvillar ásamt 30 daga dánartíðni. Sérstaklega var leitað að eftirfarandi langtíma fylgikvillum: hjartaáfall, heilablóðfall, þörf á endurhjáveituaðgerð, kransæðavíkkun með eða án stoðnetsísetningu og dauða (e. major adverse cardiac and cerebrovascular event, MACCE). Langtíma lifun og MACCE-frí lifun voru síðan áætlaðar með aðferð Kaplan-Meiers og sjálfstæðir forspárþættir fundnir með Cox aðhvarfsgreiningu. Miðgildi eftirfylgdar var 65,6 mánuðir og miðaðist eftirfylgd við 1. júní 2017.
  Niðurstöður: Hóparnir voru sambærilegir m.t.t. aldurs, kynjadreifingar, áhættuþátta kransæðasjúk-dóms, EuroSCORE II og aðgerðartengdra þátta s.s. tímalengd aðgerðar, en líkamsþyngdarstuðull (LÞS) SRI-hópsins var hins vegar marktækt hærri (30,2 sbr. 28,3 kg/m2; p<0,001). Ekki reyndist marktækur munur milli hópa á blæðingu eftir aðgerð (815 ml sbr. 877,3 ml; p=0,26) og magn blóðhlutagjafa var sömuleiðis sambærilegt. Í fjölþáttagreiningu reyndist notkun SSRI/SNRI lyfja heldur ekki forspárþáttur þess að þurfa blóðgjöf eftir aðgerð. Tíðni minniháttar og alvarlegra fylgikvilla reyndist sambærileg í báðum hópum, sem og dánartíðni innan 30 daga frá aðgerð (2,1% sbr. 1,5% hjá V-hópi, p=0,66) og 5-ára MACCE-frí lifun (81,1% sbr. 83,4%). Hins vegar reyndist 5-ára heildarlifun marktækt síðri hjá sjúklingum í SRI-hópi (88,2% sbr. 91,0%). Notkun SSRI/SNRI lyfja reyndist sjálfstæður áhættuþáttrur fyrir dauða samkvæmt Cox fjölþáttagreiningu (HH=2,16; 95% ÖB: 1,51-3,10; p=0,004).
  Ályktun: Blæðing eftir kransæðahjáveituaðgerð er ekki aukin hjá sjúklingum sem taka SSRI/SNRI geðdeyfðarlyf og tíðni fylgikvilla, 30 daga dánartíðni og MACCE-frí lifun eru sambærileg og fyrir sjúklinga sem ekki taka þessi lyf. Langtíma lifun sjúklinga sem taka SSRI/SNRI lyf er þó síðri en sá munur virðist ekki skýrast af hærri dánartíðni vegna hjarta- og æðasjúkdóma. Því virðist ekki ástæða til þess að stöðva notkun þessara lyfja fyrir opnar hjartaaðgerðir.

Samþykkt: 
 • 11.5.2018
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/30293


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Eydublad.pdf35.84 kBLokaðurYfirlýsingPDF
alexandra.aldis.heimisdottir._SSRI.CABG.FINAL.pdf2.11 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna