Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/30330
Íslenskur vinnumarkaður hefur ýmis sérkenni samanborið við vinnumarkað annarra þjóða, augljóst er að fámenni þjóðarinnar hefur þar mikið að segja. Hér á landi eru fjölmenn stéttarfélög sem semja við stór félög atvinnurekenda á almenna markaðnum og hinum opinbera. Umgjörð í kringum kjarasamninga á Íslandi er um margt lík þeirri sem er á hinum Norðurlöndunum. Þó er sveigjanleiki á vinnumarkaði hér á landi mikill og jafnvel einkennandi. Sveigjanleikinn kemur fram í því að samningsaðilar beita sér með ólíkum hætti í uppsveiflu samanborið við niðursveiflu í efnahagslífinu. Þannig er að einhverju leyti tekið mið af þjóðarbúskapnum við ákvörðun launa hverju sinni.
Í ljósi þess hversu mikil áhrif kaup og kjör hafa á efnahagslífið og velferð er mikilvægt að hafa heilsteypt líkan til að byggja á í kjarasamningagerð. Við blasir að laun á Íslandi hafa áhrif á kaupmátt fólksins í landinu og þar af leiðandi á eftirspurn innanlands, bæði eftir innlendum vörum og innfluttum. Í samspili við aðra þætti hefur launastig hvers lands áhrif á verðlag þar og sömuleiðis hefur það áhrif á samkeppnishæfni þess á alþjóðlegum mörkuðum. Auk þess sem launastig hefur áhrif á eftirspurn eftir vinnuafli og þar með á atvinnuleysi. Í stærra samhengi er í hag allra innan samfélags að kjaramál og aðferðir við kjarasamninga séu í góðum horfum. Mikilvægi þeirra fara varla fram hjá neinum ef marka má samfélagslega umræðu.
Þegar litið er til Norðurlandaþjóðanna virðist það kjarasamningskerfi sem notað er hafa áhrif á efnahagslega þróun landanna enda er kjarasamningum og umgjörð þeirra beitt til þess að ná fram efnahagslegum markmiðum. Þessu er ekki svo farið hér á landi og telja margir nauðsynlegt að bæta ferla við gerð kjarasamninga á Íslandi. Samhliða því þarf að verða ljóst að hvaða leyti hið opinbera komi að því að auka velferð, jafna stöðu einstaklinga og veita þjónustu innan samfélagsins. Þess er vænst að slík breyting myndi bæði draga úr þeim vandamálum sem koma reglulega upp á vinnumarkaði og jafnframt bæta efnahagslegan árangur, sem fælist til að mynda í aukinni framleiðni og meiri nýsköpun með bættri nýtingu auðlinda, stöðugra gengi og samkeppnishæfni.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MS_ritgerd_skil_SolveigHauksdottir.pdf | 2.74 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlysing_skemma_solveighauks.pdf | 296.12 kB | Lokaður | Yfirlýsing |