Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/30369
Inngangur: Lifrarskaði af völdum lyfja (e. drug-induced liver injury; DILI) er þekkt aukaverkun lyfja. Sjúkdómsmynd DILI almennt er mjög breytileg, allt frá því að vera einkennalaus hækkun á lifrarprófum í vægustu tilfellunum, til óafturkræfrar lifrarbilunar sem leitt getur til dauða.
Ný kynslóð blóðþynningarlyfja sem tekin eru um munn (NOACs) krefjast ekki jafn mikillar eftirfylgni og eldri vítamín K hemlar (warfarin). Undanfarin ár hafa birst um 30 tilvik lifrarskaða af völdum eins þessara lyfja, rivaroxaban. Lítið er vitað um tíðni þessarar aukaverkunar. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta hversu margir þeirra sem nota lyfið fá lifrarskaða af völdum þess.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og lýðgrunduð. Kennitölur allra einstaklinga sem fengu ávísuðu blóðþynningarlyfinu rivaroxaban til ársloka 2017 voru samkeyrðar við sjúkraskrárkerfi Landspítala. Þeir einstaklingar sem höfðu hækkanir í lifrarprufum á tímabili rannsóknarinnar voru í úrtaki rannsóknarinnar. Þessar hækkanir voru ALAT > 3x efri mörk (ULN), ASAT > 3xULN, ALP >2xULN, eða bilirubin > 2xULN. Sjúkrasögur þeirra sem höfðu hækkanir og inntaka lyfs var í tímalegu samhengi við hækkanir voru skoðaðar. Ef fyrir lá grunur um að hækkanir væru vegna inntöku rivaroxaban var svokölluð RUCAM stigun notuð til þess að ákvarða orsakasamhengi.
Niðurstöður: Í heildina fengu 3446 sjúklingar rivaroxaban ávísað á tímabilinu. Af þeim fundust 3 tilvik lifrarskaða þar sem grunur var um að lyfið væri orsakavaldur. Einn af hverjum 1149 sjúklingum á lyfinu fengu lifrarskaða. Tilfellin voru flokkuð samkvæmt RUCAM-stigunarkerfinu og fengu einkunnirnar mjög líklegt, líklegt og mögulegt. Allir sjúklingarnir sem fengu lifrarskaða voru konur. Meðferðarlengd áður en lifrarskaði kom fram var bilinu 8 – 586 dagar. Lifrarskaði gekk til baka í öllum tilfellum dagar og sá tími sem tók fyrir lifrarprufur að batna eftir að inntöku lyfs var hætt var á bilinu 18 – 173 dagar. Einn sjúklingur þróaði með sér sjálfsofnæmislifrarbólgu í kjölfar lifrarprufuhækkananna.
Ályktanir: Þessi rannsókn er sú eina lýðgrundaða sem hefur verið gerð á tíðni rivaroxaban DILI til okkar vitundar. Hlutfall sjúklinga á lyfinu sem fá lifrarskaða (e. number needed to harm) er 1/1149 og er það hæsta tilkynnta tíðni lifrarskaða af völdum rivaroxaban til þessa.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
David_Orri_Gudmundsson.pdf | 502.71 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlysing_um_medferd_lokaverkefna.pdf | 641.48 kB | Lokaður | Yfirlýsing |