is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/30371

Titill: 
 • Pneumocystis jirovecii sýkingar á Íslandi
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Pneumocystis jirovecii er smásær sveppur sem veldur lungnabólgu nær eingöngu í ónæmisbældum sjúklingum. Áður bar sveppurinn nafnið Pneumocystis carinii og þegar honum var fyrst lýst á 20. öld var talið að um sníkjudýr væri að ræða. Á fyrri hluta síðustu aldar komu upp nokkrir faraldrar af lungnabólgu af völdum Pneumocystis jirovecii (PCP) en það var ekki fyrr en alnæmisfaraldurinn skók Bandaríkin, og síðar heimsbyggðina, að sjúkdómurinn lagðist á töluverðan fjölda manns. Þá eru sjúklingar með undirliggjandi sjúkdóma svo sem krabbamein og sjálfsofnæmissjúkdóma í hættu á að þróa með sér PCP en ónæmisbælandi meðferð við slíkum sjúkdómum eykur hættuna verulega og er í raun talin orsök þeirrar áhættu. Markmið rannsóknarinnar voru að fá yfirlit yfir faraldsfræði PCP á Íslandi á árunum 1995- 2017, áhættuþætti, meðferðarval og afdrif.
  Efniviður og aðferðir: Upplýsingum var safnað með afturvirkum hætti um alla þá sjúklinga á Íslandi sem greindust með PCP á árunum 1995-2017. Þeim var safnað úr sjúkraskrám sjúklinganna og skráðar í gagnagrunn í Excel. Dæmi um breytur sem skráðar voru niður eru undirliggjandi sjúkdómur, ónæmisbælandi meðferð og afdrif.
  Niðurstöður: Alls greindust 52 sjúklingar með PCP á Íslandi á rannsóknartímanum, meðalaldur þeirra var 51 ár og voru það 31 (60%) karl og 21 (40%) kona. Meðalnýgengi, á ári, var 0,73 á hverja 100.000 íbúa Íslands yfir rannsóknartímabilið. Átján (35%) sjúklinganna voru smitaðir af alnæmisveiru (HIV) en aðrir sjúklingar höfðu fengið ónæmisbælandi meðferð við undirliggjandi sjúkdómi. Yfir 90% sjúklinga voru greindir af sýklafræðideildinni með flúrskinslitun á berkjuskolsvökva, aðrir sjúklingar voru greindir með silfurlitun, PCR eða sérlitun á vefjasýni. Flestir fengu kjörlyfjameðferð trimetoprim- sulfamethoxazol (TMP-SMZ) eða 34 (65%) einstaklingar og fengu 33 (64%) sjúklingar stera samhliða sinni meðferð. Í heildina létust tíu sjúklingar (19%) innan 30 daga frá greiningu og var meðalaldur þeirra 62 ár. Fleiri karlar en konur létust en þeir voru sjö talsins. Sjö af þeim sem létust voru ekki smitaðir af HIV og er dánartíðni þess hóps 21%.
  Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar hafa varpað ljósi á faraldsfræði lungnabólgu af völdum Pneumocystis jirovecii á Íslandi. Nýgengi hefur ekki breyst á rannsóknartímabilinu og voru allir sjúklingar með undirliggjandi sjúkdóm eins og við mátti búast. Dánartíðni vegna PCP virðist vera lægri hér á landi meðal þeirra sjúklinga sem ekki eru smitaðir af HIV. Ljóst er að mikilvægt er að vera vakandi fyrir PCP meðal ónæmisbældra sjúklinga sem hafa einkenni frá lungum.

Samþykkt: 
 • 14.5.2018
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/30371


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
stella.s.vilhjalmsdottir_pneumocystis.jirovecii.pdf796 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
yfirlysing.jpg334.12 kBLokaðurYfirlýsingJPG