is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/30374

Titill: 
  • Sjálfsofnæmissjúkdómar í tengslum við rituximab meðferð
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Rituximab er líftæknilyf sem ræðst sértækt gegn B-eitilfrumum líkamans og er notað gegn eitilfrumukrabbameinum og sjálfsofnæmissjúkdómum. Þótt líftæknilyf eins og rituximab reynist vel sem meðferð við fjölmörgum sjúkdómum hafa nýlega komið í ljós vísbendingar um að þau geti haft alvarlegar, en þó sjaldgæfar, aukaverkanir í för með sér og að mörg þeirra geti jafnvel orsakað sjálfsofnæmissjúkdóma hjá sjúklingum. Í kjölfar þessara uppgötvana vakna spurningar um þátt B-eitilfruma í sjálfsofnæmissjúkdómum. Fjallað hefur verið um fjölda tilfella þar sem versnun hefur orðið á sáraristilbólgu ásamt byrjun á sáraristilbólgu, sóra, sarklíki og Crohn’s sjúkdómi í kjölfar rituximab meðferðar. Tengsl rituximab við smágirnis- og ristilbólgu bendir til verndandi áhrifa CD20+ eitilfruma í meltingarvegi og hugsanlega getur tæming CD20+ eitilfruma tengst þróun þessara sjúkdóma. Óljóst er hversu margir sjúklingar fá sjálfsofnæmissjúkdóma í kjölfar rituximab meðferðar og hvort ábendingar eða meðferðarlengd hafi áhrif á þessa aukaverkun.
    Efniviður og aðferðir: Þetta var aftursýn rannsókn á einstaklingum sem fengu leyfi fyrir meðferð með rituximab frá ársbyrjun 2001 til mars 2018. Almennum upplýsingum um aldur, kyn og dánartíðni var safnað. Sjúklingar voru flokkaðir eftir ábendingum, hvort þeir hefðu þróað með sér sjálfsofnæmissjúkdóm eftir meðferð með rituximab, skammtastærð sem var ávísað, meðferðarlengd, og hvort önnur ónæmisbælandi meðferð hafi verið gefin samhliða rituximab. Þeir sjúklingar sem greindust með langvinna bólgusjúkdóma í meltingarvegi (IBD) voru skoðaðir ítarlegar og kannað hver sjúkdómsmyndin var samkvæmt speglunum og sýnatöku.
    Niðurstöður: Alls voru 673 sjúklingar sem fengu leyfi fyrir meðferð með rituximab á Íslandi árin 2001-2018. 646 sjúklingar voru með fullnægjandi upplýsingar og fengu staðfest rituximab meðferð í minnsta kosti eitt skipti. Algengasta ábending fyrir rituximab meðferð var dreift stóreitilfrumuæxli, en aðrar helstu ábendingar voru eitlasarkmein, heila- og mænusigg, iktsýki, rauðir úlfar og langvinnt eitilfrumuhvítblæði. Nýgengi sjálfsofnæmissjúkdóma í kjölfar rituximab meðferðar á árunum 2001-2018 var 5,6 fyrir hver 1.000 persónuár, en nýgengitíðni IBD var 2,2 fyrir hver 1.000 persónuár. Sóri var með nýgengitíðni upp á 1,6 fyrir hver 1.000 persónuár.
    Ályktanir: Flestar ábendingar rituximab voru fyrir eitilfrumukrabbameinum, en ábendingum fyrir sjálfsofnæmissjúkdómum fer fjölgandi. Nýgengitíðni langvinnra bólgusjúkdóma í meltingarvegi hjá þeim sem fengu rituximab meðferð var áttfalt hærri en samanburðartölur á nýgengi slíkra sjúkdóma á Íslandi árin 1995-2009. Það eru marktækt meiri líkur á því að sjúklingar sem fá rituximab ábendingu fyrir sjálfsofnæmismeinsemd þrói með sér annan sjálfsofnæmissjúkdóm. Einnig eru minni líkur á því að sjúklingur með eitilfrumukrabbamein þrói með sér sjálfsofnæmissjúkdóm í kjölfar meðferðar. Meðferðarlengd sjúklinga sem þróuðu með sér sjálfsofnæmissjúkdóm í kjölfar rituximab meðferðar var marktækt lengri en hjá þeim sem ekki þróuðu með sér sjálfsofnæmissjúkdóm.

Samþykkt: 
  • 14.5.2018
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/30374


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Valdimar_Bersi_Kristjansson_-_Sjalfsofnaemissjukdomar_i_tengslum_vid_rituximab_medferd.pdf933.6 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
img-180511095526.pdf158.08 kBLokaðurYfirlýsingPDF