is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/30375

Titill: 
 • Hjartaþelsbólga meðal fíkniefnaneytenda sem sprauta sig í æð
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Hjartaþelsbólga er sjaldgæfur en afar alvarlegur sjúkdómur. Þrátt fyrir framfarir í læknavísindum hefur nýgengi hjartaþelsbólgu haldist nokkuð stöðugt síðustu áratugi og var metið hér á landi sem 2,97/100.000 íbúa/ári á tímabilinu 2000-2009. Einstaklingar sem nota vímuefni um æð eru í sérstökum áhættuhópi á að greinast með hjartaþelsbólgu en fyrri rannsóknir hér á landi gefa vísbendingar um aukningu. Ástæða er því til að meta hvort nýgengi hjartaþelsbólgu hafi aukist meðal sprautufíkla hér á landi, skoða stærri hóp og lengra tímabil. Auk þess er markmið rannsóknarinnar er að skoða faraldsfræði hjartaþelsbólgu sem greinist á Landspítala með tilliti til aldurs og kyns sjúklinga, áhættuþátta, klínískrar birtingarmyndar, sýklafræðilegra orsaka, meðferðar og lifunar sjúklinga. Enn fremur er markmiðið að bera saman þann hóp sjúklinga sem notar vímuefni um æð við aðra sjúklinga.
  Efniviður og aðferðir: Framkvæmd var aftursýn, lýsandi rannsókn á hjartaþelsbólgu á Íslandi árin 2000-2017. Farið var yfir sjúkraskrár einstaklinga sem höfðu ICD kóða fyrir hjartaþelsbólgu á timabilinu og hvert tilfelli metið með tilliti til Duke skilmerkja. Tilfelli sem flokkuðust sem örugg eða hugsanleg greining með tilliti til Duke skilmerkja voru skoðuð nánar. Klínískar upplýsingar voru skráðar í Excel og REDCap. Við tölfræðilega úrvinnslu var notast við tölfræðiforritið R og Excel.
  Niðurstöður: Staðfest voru 254 tilfelli hjartaþelsbólgu á tímabilinu en þar af voru 45 eða 18,4% meðal einstaklinga sem nota vímuefni um æð. Meðalaldur fíkla var 35,5 ár og annarra 59,8 ár en hlutfall karla var hærra í báðum hópum. Flest tilfelli hjartaþelsbólgu greindust árið 2017 þegar 29 einstaklingar greindust og fjöldi tilfella meðal einstaklinga sem sprauta sig fíkniefnum náði einnig hámarki árið 2017. Meðalnýgengi hjartaþelsbólgu á timabilinu var reyndist vera 4,4 tilfelli/100.000/ár. Nýgengið var hæst árið 2017 þegar það náði 8,57 tilfellum/100.000/ár. Aldursbundið nýgengi var hæst hjá einstaklingum á aldursbilinu 70-79 ára eða 36,5 tilfelli á 100.000 íbúa á ári. S. aureus var algengasti sýkingarvaldur í sýkingum meðal fíkla og ræktaðist í 67% tilfella. Streptókokkar og stafýlókokkar ræktuðst samanlagt í 67% tilfella hjartaþelsbólgu meðal einstaklinga sem ekki neyttu vímuefna um æð, 34% tilfella hvor. Í 53% tilfella sýkinga meðal fíkniefnaneytenda var þríblöðkuloka sýkt. Algengast var að aðrir sjúklingar hefðu sýkingu í ósæðarloku, í 44,3% tilfella. Af hópi sjúklinga sem nota vímuefni um æð lést enginn á fyrstu 30 dögum eftir greiningu en 9% einstaklinga voru látnir 6 mánuðum frá greiningu. Í hópi annarra sjúklinga voru 8,3% látnir 30 dögum frá greiningu og 10,2% innan 6 mánaða.
  Ályktanir: Það virðist vera aukning á nýgengi hjartaþelsbólgu hér á landi, en aldursbundið nýgengi hækkar með aldri, einkum eftir 70 ár. Einnig greindist aukning á nýgengi hjartaþelsbólgu meðal einstaklinga sem sprauta sig með fíkniefnum í æð frá árinu 2000. Niðurstöður sýna jafnframt að töluverður munur er á þeim sjúklingahópi sem notar vímuefni um æð í samanburði við aðra sjúklinga sem greinast með hjartaþelsbólgu. Meðalaldur þessa hóps er lægri, sýkingin á sér frekar stað í þríblöðkuloku samanborið við aðra sjúklinga þar sem sýking er algengust í ósæðarloku. Auk virðist lifun þessa sjúklingahóps var almennt betri en þeirra sem ekki neyttu vímuefna um æð.

Samþykkt: 
 • 14.5.2018
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/30375


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Sylvia_kristin_stefansdottir_Hjartathelsbolga_pdf.pdf1.42 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Doc 11 May 2018, 20:54.pdf873.81 kBLokaðurYfirlýsingPDF