is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/30409

Titill: 
 • Meðfæddur þindarhaull á Íslandi árin 2002-2017
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Meðfæddur þindarhaull er alvarlegur fæðingargalli þar sem þind hefur ekki lokast að fullu í fósturþroska og kviðarholslíffæri liggja í brjóstholi þar sem þau þrengja að vaxandi brjóstholslíffærum. Gallinn er oftast greindur á fósturskeiði. Afleiðingar sjúkdómsins eru víðtækar en helstu vandamál sjúklinganna fyrst eftir fæðingu eru lungnavandamál. Meðferð snýr fyrst og fremst að því að meðhöndla lungnaháþrýsting sem nánast alltaf fylgir gallanum og framkvæma svo skurðaðgerð þar sem meltingar-færum er komið fyrir í kviðarholi og lokað er fyrir þind. Tilgangur þessarar rannsóknar var að meta hversu vel hefur tekist að greina þennan galla í móðurkviði og meta hvort ákveðnar breytur hafi forspárgildi fyrir horfur sem mætti þá nota í ákvörðunartöku um afdrif meðgöngu. Einnig var árangur meðferðar metinn með tilliti til lifunar, lengd öndunarvélameðferðar og lyfjanotkunar.
  Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og lýsandi. Rannsakaðar voru annars vegar meðgöngur þeirra kvenna sem áttu fóstur greind með þindarhaul og hins vegar börn sem fengu greininguna Q79.0 á árunum 2002-2017. Upplýsingar um börnin og mæður fengust úr sjúkraskrám landspítala.
  Niðurstöður: Á tímabilinu greindust 28 tilfelli með meðfæddan þindarhaul. 22 greindust á fósturskeiði en af þeim enduðu fjögur með meðgöngurofi. 6 tilfellanna greindust eftir fæðingu og þar af greindist eitt seint (eftir nýburaskeið) eða rúmlega eins árs. Nýgengi á tímabilinu var 1 á hver 2933 lifandi fædd börn. Dánartíðni var 20,8%. Nýburarnir sem létust eftir fæðingu greindust með þindarhaul að meðaltali fyrr en þau sem lifðu (p = 0,0471). Meðgöngualdur við fæðingu meðal barnanna sem lifðu var um 276 dagar en meðal þeirra sem létust var um 241 dagur (p = 0,0125). Apgar stig við 1 og 5 mínútur var einnig marktækt hærra meðal þeirra sem lifðu (p = 0,0437 við 1 mínútu og p = 0,0141 við 5). Fimm barnanna sem fæddust með þindarhaul létust en þau létust öll innan 24 klukkustunda frá fæðingu. Öll fimm börnin voru greind með gallann á fósturskeiði. Aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á að hægri þindargalli sé alvarlegri sjúkdómur en vinstri galli. Ekki tókst að sýna fram á aukna dánartíðni meðal barna með hægri galla í þessari rannsókn. Hins vegar voru börn með hægri galla að meðaltali fleiri daga í öndunarvél en börn með vinstri galla, 28 daga að meðaltali miðað við 12 (p = 0,00928). Magi var oftar ofan þindar í vinstri galla (60,87%) og lifur var oftar ofan þindar í hægri galla (100%). Af þeim 24 konum sem ekki fóru í meðgöngurof höfðu 17 aukið legvatnsmagn. Þar af voru 12 með AFI > 25 og/eða DP > 8. Þrjár konur höfðu eðlilegt legvatnsmagn og engar upplýsingar var að finna um hinar þrjár.
  Ályktanir: Ef þessi rannsókn er borin saman við aðra íslenska rannsókn um þindarhaul, sem náði yfir árin 1983-2002, hefur nýgengi hækkað. Hlutfall greininga á meðgöngu hefur einnig hækkað úr 25,8% í 78,6% og hefur hlutfall þeirra sem kjósa meðgöngurof eftir greiningu á meðgöngu minnkað úr 87,5% í 18,2%. Það skýrir að minnsta kosti að hluta þessa auknu nýgengitíðni. Dánartíðni hefur lækkað minna en búast mætti við. Það mætti rekja til þess að með lækkaðri tíðni meðgöngurofs fæðast nú veikari börn en áður. Nokkrar breytur virtust hafa marktæk áhrif á lifun og þá í samræmi við erlendar rannsóknir. Ekki nærri því allar sýndu þó marktæki en það mætti rekja til þess hve smátt þýði þessarar rannsóknar var.

Samþykkt: 
 • 15.5.2018
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/30409


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
thordis.ylfa_diaphragma.hernia.pdf947.04 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
11_2018 ES.pdf214.2 kBOpinnFylgiskjölPDFSkoða/Opna
20180126T133034.pdf405.72 kBOpinnFylgiskjölPDFSkoða/Opna
bs skjal.pdf368.72 kBLokaðurYfirlýsingPDF