Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/30455
Áhrif stýrðrar kennslu Engelmanns og fimiþjálfunar á lestrarfærni þátttakandans, 12 ára stúlku með sértæka námsörðugleika, var metin. Stýrð kennsla (e. Direct Instruction) er raunprófuð kennsluaðferð sem hefur reynst árangursrík í kennslu, meðal annars á nemendum með námsörðugleika. Þátttakandi rannsóknarinnar var nemandi í 7. bekk með sértæka námsörðugleika. Í upphafi rannsóknar, í janúar, las hann 49 orð á mínútu á raddlestrarprófi. Lestrarfærni hans í prófinu samsvaraði lestrarfærni nemenda í 2. til 3. bekk. Þátttakandinn hafði áður kynnst stýrðri kennslu og fimiþjálfun, vorið 2017. Í upphafi rannsóknar, vorið 2018, voru gerðar grunnskeiðsmælingar, þar sem færni þátttakanda á þekkingu bókstafa og hljóðun þeirra var mæld ásamt lestri stuttra orða og setninga. Í grunnskeiðsmælingum kom í ljós að þátttakandinn átti í erfiðleikum með hljóðun tíu lágstafa og því voru þeir teknir fyrir með stýrðri kennslu samhliða fimiþjálfun. Í stýrðri kennslu Engelmanns er handriti fylgt þar sem leiðbeiningar eru um hvað skal kennt og hvernig og námsefni kynnt fyrir nemendum samkvæmt áætlun. Fimiþjálfun sem byggir á Precision Teaching er raunprófuð aðferð til að auka fimi nemenda og er einnig mælitæki á frammistöðu nemenda. Fimi (e. fluency) er þegar kunnátta í lestri er hröð, nákvæm og næstum því sjálfvirk. Markmið fimiþjálfunar er að auka fimi og færni nemenda á þeim námsþáttum sem þörf er á. Fimiþjálfun má nota samhliða hvaða kennsluaðferð sem er. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að færni þátttakanda í hljóðun níu af tíu lágstöfum og sérstökum verkefnum tengdum lestri jókst á rannsóknartímabilinu. Því er að hægt að draga þá ályktun að með stýrðri kennslu og fimiþjálfun hafi þátttakandinn náð bættum árangri í námi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
B.S_Lokaverkefni_adelinaogelma.pdf | 948,82 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
yfirlysing.pdf | 459,48 kB | Lokaður | Yfirlýsing |