is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/30461

Titill: 
 • Börn með einkenni alvarlegra sýkinga á Bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur og markmið: Bráðamóttökur eru yfirleitt þétt setnar en þangað leita börn með ólíkar þarfir og sjúkdóma. Mikilvægt er að meðhöndla þá sem þurfa tafarlaust en að sama skapi þarf að lágmarka inngrip, innlagnir og sýklalyfjagjöf eins og kostur er. Það er því brýnt að börn með alvarlegar sýkingar fái skjóta greiningu og viðeigandi meðferð. Betri þekking á faraldsfræði alvarlegra sýkinga ásamt forspárgildi rannsóknarniðurstaðna, einkenna og teikna er undirstaða framfara í greiningu og meðferð. Markmið þessarar rannsóknar var að lýsa faraldsfræði alvarlegra sýkinga í börnum ásamt mati á forspárgildi greiningaraðferða um alvarleika sýkingar.
  Efniviður og aðferðir: Framkvæmd var framsýn rannsókn á börnum sem leituðu á Bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins með einkenni alvarlegra sýkinga, til dæmis (en takmarkast ekki við) blóðsýkingar, lungnabólgu, heilahimnubólgu og nýrnaskjóðusýkingar. Rannsóknin spannar tæplega tveggja ára tímabil frá og með september 2012 til og með júní 2014. Þau gögn sem notuð voru í rannsókninni voru annars vegar sótt í sjúkraskrárkerfi Landspítalans en hins vegar fengin af spurningalista sem forráðamenn fylltu út.
  Niðurstöður: Af þeim 196 börnum sem uppfylltu inntökuskilyrði rannsóknarinnar og upplýst samþykki lá fyrir reyndust 83 (42,3%) hafa alvarlega sýkingu. Hlutfall alvarlegra sýkinga af öllum tilfellum var hæst hjá börnum eins til þriggja ára (55,2%) og börnum fjögurra til 12 mánaða (53,8%). Sýkingavaldur ræktaðist í blóði hjá 5 (2,6%) þátttakendum. Algengasta greiningin var ótilgreind veirusýking (n=53) en af alvarlegum sýkingum voru sýkingar í neðri öndunarvegum algengastar (n=33). Hjá börnum þriggja mánaða og yngri (n=72) ollu þvagfærasýkingar (n=13) og heilahimnubólgur (n=6) flestum tilfellum alvarlegra sýkinga. Í eldri börnum, fjögurra mánaða til 12 ára (n=107) mátti rekja þriðjung (n=35) allra tilfella til sýkinga í neðri öndunarvegum. Sýkill var einangraður frá 43 (51,8%) börnum með alvarlega sýkingu, bakteríur hjá 30 börnum (36,1%) en veirur hjá 13 börnum (15,7%). E. coli (n=20) var algengasti sýkingavaldur alvarlegra sýkinga en átta aðrar tegundir baktería og þrjár tegundir veira voru einangraðar frá hópi barna með alvarlegar sýkingar. Þegar borin voru saman klínisk einkenni og lífsmörk reyndist ekki vera marktækur munur milli barna með alvarlegar og einfaldar sýkingar að undanskildri mældri súrefnismettun undir 95% þar sem hlutfallið var hærra meðal barna með alvarlegar sýkingar (p=0,015). Aðhvarfsgreining á niðurstöðum rannsóknargilda þar sem leiðrétt var fyrir aldri og kyni sýndi að hækkun á C-reaktívu próteini er eina gildið sem tengist líkum á alvarlegri sýkingu.
  Ályktanir: Líkt og niðurstöður samsvarandi rannsókna hafa sýnt eru klínisk einkenni, lífsmörk og almennar blóð- og myndrannsóknir ekki nægilega næmar til að aðgreina börn með alvarlegar sýkingar frá þeim með einfaldari sýkingar. Einnig má telja líklegt að blóðræktanir séu ekki nægilega næmar til greina allar blóðsýkingar og að meingerð alvarlegra sýkinga sé háð mörgum þáttum, bæði hjá sýkli og hýsli. Rannsóknin sýnir einnig að yngstu börnin eru í mestri hættu á alvarlegum sýkingum og því mikilvægt að hefja reynslumeðferð með sýklalyfjum hjá þessum aldurshópi. Þetta er í samræmi við verklagsreglur á Barnaspítala Hringsins.

Samþykkt: 
 • 28.5.2018
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/30461


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Börn með einkenni alvarlegra sýkinga á Bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins(PDF).pdf2.38 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Skemman - Yfirlýsing.jpeg1.46 MBLokaðurYfirlýsingJPG