is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/30472

Titill: 
 • Komur barna á slysa- og bráðamóttöku Landspítala með útlimaáverka á árunum 2013-2017
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Ein algengasta tegund áverka hjá börnum eru stoðkerfisáverkar. Er ástæða mögulega tengd virkni þeirra í íþróttum og leik, en einnig því að þroski barna fer eftir aldri og eru þau því mis vel í stakk búin til að meta aðstæður og takast á við þær. Lengi hefur verið vitað að stoðkerfisáverkar eru helstu ástæður fyrir komum barna á heilbrigðisstofnanir. Þrátt fyrir það hefur lítið verið skrifað um áverka af þessu tagi og fáar rannsóknir verið gerðar. Gögn um áverka og ástæður þeirra eru nauðsynleg svo að hægt sé að koma auga á forgangsverkefni og áhættuhópa og einnig til að skilja undirliggjandi ástæður áverka. Markmið rannsóknarinnar var að skoða komur barna á slysa- og bráðamóttöku Landspítala vegna útlimaáverka og þá í tengslum við orsakir, kynja- og aldursdreifingu og helstu útlimaáverka sem börn verða fyrir.
  Um er að ræða lýsandi og farandsfræðilega rannsókn. Rannsóknin var afturskyggn þar sem fengnar voru gagnaskrár úr rafræna sjúkraskrárkerfinu Sögu. Í úrtaki voru öll börn á aldrinum 0-18 ára sem leitað höfðu á slysa- og bráðamóttöku Landspítala vegna útlimaáverka á tímabilinu 1. janúar 2013 til 31. desember 2017.
  Á rannsóknartímabilinu voru komur 31.150 og alls voru það 17.419 börn. Nýgengi var 312,6 börn á hver 1000 börn með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu. Stúlkur voru 47,1% af heildarkomum og drengir 52,9%. Meðalaldur við komu var 10,96 ára (0-18 ára) og algengasti aldur 12 ára. Flestar komur voru hjá aldurshópnum 10-14 ára (42,4%). Algengustu orsakir áverka voru fall (44,8%) og árekstrar (25,2%). Algengasta greining barna við komu var “Tognun og ofreynsla á ökkla” (31,17%) og algengasti greiningarflokkur var “Úlnliður og hönd” (11,4%).
  Nýgengi íslenskra barna með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu var hærra en í erlendum samanburðarrannsóknum. Orsakir og greiningar barna með útlimaáverka voru svipaðar og í erlendum rannsóknum og kynjadreifing var nokkuð jöfn en drengir aðeins fleiri eins og við var búist út frá fyrirliggjandi gögnum.
  Ljóst er að þörf er á frekari rannsóknum á áverkum barna og þá sérstaklega stoðkerfisáverkum og myndu þær rannsóknir nýtast til að bæta meðferð og koma í veg fyrir afleiðingar áverka. Einnig gætu rannsóknir nýst til að efla slysavarnir og fækka slysum barna. Skráningu við komu barna á slysa-og bráðadeild Landspítala þyrfti að taka til athugunar þar sem tækifæri sjást til umbóta og þá sérstaklega m.t.t. skráningu orsaka. Þrátt fyrir aukna umfjöllun um starfsemi heilsugæslunnar í samfélaginu mætti bæta vitund almennings á bráðaþjónustu innan hennar. Með því mætti fækka komum á slysa- og bráðadeild Landspítala í þeim tilvikum þar sem ekki er þörf á sérhæfðri þjónustu.
  Lykilorð: stoðkerfisáverkar, börn, orsakir, greiningar, skráning.

Samþykkt: 
 • 28.5.2018
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/30472


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Komur barna á slysa- og bráðamóttöku Landspítala með útlimaáverka á árunum 2013-2017.pdf656.5 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Skemman_yfirlysing_16.pdf15.73 kBLokaðurYfirlýsingPDF