is Íslenska en English

Lokaverkefni (Diplóma bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Diplómaritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/30524

Titill: 
 • Breytingar á BMD og BMC hjá 16 til 18 ára íslenskum ungmennum. Áhrif hreyfingar og D-vítamíns
Námsstig: 
 • Diplóma bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Heilbrigður lífsstíll barna og ungmenna er mikilvægur til að draga úr hættu á beinþynningu við öldrun. Helsta orsök beinþynningarbrota er lækkaður beinmassi, sem getur stafað af aldurstengdri lækkun á beinþéttni og/eða ef ekki næst hámarks beinmassi á vaxtarárunum. Hámarks beinmassi er einn af stærstu áhrifaþáttum á heilbrigði beinagrindarinnar í gegnum lífsleiðina. Barnæska og unglingsárin eru sérstaklega mikilvægur tími til að hámarka beinmassa vegna þess hve mikið og skjótt beinagrindin breytist. Vísbendingar benda til þess að hreyfing í æsku sé ein af öflugustu fyrirbyggjandi aðferðum í baráttunni gegn beinþynningu seinna meir og D-vítamín gegnir mikilvægum hlutverkum í beina- og kalsíumumbrotum. Þó ber niðurstöðum rannsókna ekki saman um samband milli beinþéttni og D-vítamín styrks og rökræður halda áfram varðandi ákjósanlegan styrkleika 25-hýdroxývítamíns D, 25-OHD, fyrir besta mögulega beinheilbrigðið.
  Markmið: Markmið rannsóknarinnar er að kanna breytingar á tveggja ára tímabili á beinþéttni (e. bone mineral density, BMD) og steinefnum beina (e. bone mineral content, BMC) hjá hópi 16-18 ára ungmenna á Íslandi. Einnig að kanna tengsl hreyfingar og D-vítamín gilda í blóði við beinþéttni og steinefni beina og breytingar þar á.
  Efni og aðferðir: Langsniðsrannsókn byggð á gögnum sem safnað var árin 2015 og 2017. Vorið 2015 var alls 411 nemendum 10. bekkjar við 6 grunnskóla í Reykjavík boðin þátttaka. Mælingar fóru fram þegar þátttakendurnir voru 16 ára gamlir og svo endurteknar tveimur árum seinna, við 18 ára aldur. Bein voru mæld með DXA, hreyfing með hröðunarmælum og D-vítamín með blóðprufum. Það tóku ekki allir þátt í seinni mælingunum og ekki fengust gildar mælingar hjá öllum þátttakendum. Lokafjöldi þátttakenda með gild gögn bæði árin var 142 ungmenni, 52 drengir og 90 stúlkur. Meðaltal og staðalfrávik var reiknað fyrir allar breytur og meðalprósentuhækkun milli ára á BMD og BMC. Parað t-próf var notað til að kanna hvort breytingarnar væru marktækar. Til þess að skoða beinheilsu einstaklinga með D-vítamín undir lágmarks gildinu 25 nmól/L var hópnum skipt í tvennt, þá sem mældust með <25 og ≥25 nmól/L. Línuleg aðhvarfsgreining var notuð til að kanna áhrif skýribreyta, hreyfingar og D-vítamíns, á hvora svarbreytuna fyrir sig, BMD og BMC, fyrir bæði kynin.
  Niðurstöður: Engar marktækar breytingar mældust hjá stúlkum milli ára samkvæmt pöruðu t-prófi en drengirnir bæði stækkuðu og þyngdust marktækt og BMD og BMC hækkaði einnig marktækt milli ára hjá drengjum. BMD hækkaði meira hjá drengjum eða um 5,90% miðað við 2,31% hjá stúlkum, og BMC hækkaði um 9,10% hjá drengjum miðað við 3,37% hjá stúlkum.
  Ályktanir: Sterk tengsl eru milli D-vítamíns og beinþéttni ungra íslenskra stúlkna og einnig eru tengsl milli hreyfingar og beinþéttni ungra íslenskra drengja. Niðurstöðurnar gefa því vísbendingar um að D-vítamín og hreyfing hafi áhrif á beinþéttni íslenskra ungmenna, það má þó segja að D-vítamín og hreyfing spili mismunandi hlutverk milli íslenskra stúlkna og drengja.

Samþykkt: 
 • 30.5.2018
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/30524


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Klara Ingólfsdóttir - Breytingar á BMD og BMC.pdf1.74 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
345121-052918.pdf717.06 kBLokaðurYfirlýsingPDF