Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/3057
Í þessari ritgerð er fjallað um höfundarverk ljóðskáldsins Kristjáns Einarssonar frá Djúpalæk. Notaðar eru kenningar um grenndarvitund og um sjálfs- og samvitund fólks á breytingartímum og þá einkum litið til fræða Stuarts Halls og Manuels Castells, en kenningar um alþýðukveðskap eru einnig hafðar til hliðsjónar. Kynnt er nýleg flokkun breskra bókmenntafræðinga á nútímaljóðinu (e. modern poetry) og sýnt fram á að Kristján frá Djúpalæk yrkir ljóð sem falla í þann flokk. Sýnt er með dæmum hvernig stjórnmálaskoðanir Kristjáns höfðu áhrif á ljóðagerð hans og fjallað um það hvernig pólitísk viðhorf skálda höfðu áhrif á viðtökur verka þeirra á tuttugustu öld. Að endingu er nokkuð rætt um dægurlagatextagerð Kristjáns.
Rannsóknarspurningar verksins eru einkum tvær: Hvers konar skáld var Kristján frá Djúpalæk og hvers vegna hefur hann átt upp á pallborðið hjá alþýðu manna en ekki bókmenntaelítunni? Kristján var fjölhæft skáld og orti undir ýmsum bragformum og formleysum. Í grunninn var hann hefðbundinn að formi en nútímalegur að efnisvali þar sem hann deilir gjarnan á samtíma sinn. Hann hafði sterka grenndarvitund sem sést vel í ljóðum hans og öðrum skrifum. Kristján var lítt skólagenginn, verkamaður og landsbyggðarmaður. Staður hans í íslenskum bókmenntasögum er ekki stór en rými hans í íslenskri alþýðumenningu er þeim mun stærra.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Adalbjorg_fixed_MAritgerd.pdf | 641.79 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |