is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/30594

Titill: 
  • Tengsl sjálfstjórnar í námi, farsæls þroska og námsframvindu 10-12 ára barna: Niðurstöður 3 ára langtímarannsóknar
  • Titill er á ensku The association between self regulated learning, positive youth development and academic achievement among 10-12 year old children: Findings from a 3 year longitudinal study
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Unglingsárin geta reynst mörgum erfið og standa einstaklingar frammi fyrir miklum breytingum bæði í ytra og innra umhverfi sínu. Rannsóknir hafa að miklu leyti miðast að óæskilegri hegðun unglinga og hvernig má koma í veg fyrir hana. Nokkur áherslubreyting hefur þó orðið síðustu áratugi og meira horft til þeirra styrkleika sem eru til staðar í fari unglinga og hvernig megi ýta undir þá og stuðla þannig að velgengni, meðal annars í námi og farsælum þroska þeirra. Sjálfstjórn hefur verið talin stór þáttur í uppvexti barna og unglinga og mismunandi hæfni á því sviði virðist hafa forspármátt fyrir mismunandi útkomum í þroska og frammistöðu í námi. Sértækari mælingar á sjálfstjórn hafa verið skoðaðar eins og sjálfstjórn í námi þar sem einnig má finna slík tengsl. Rannsóknir eru þó að mörgu leyti stutt á veg komnar og fáar fjalla um upphaf unglingsáranna (early adolesence), sérstaklega hér á landi. Markmið þessarar rannsóknar var að athuga hvort forspártengsl mætti finna á milli sjálfstjórnar í námi og farsæls þroska og námsgengis tveimur árum síðar hjá börnum við upphaf unglingsára. Einnig var athugað hvort um kynjamun væri að ræða á breytum rannsóknar þar sem því hefur verið haldið fram að sá kynjamunur sem hefur ítrekað fundist í erlendum rannsóknum á sjálfstjórn megi líkast til einnig finna á Íslandi og að sá munur gæti jafnvel átt einhvern þátt í lakari stöðu drengja í íslensku menntakerfi. Þátttakendur voru 375 nemendur í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu og fóru mælingar fram í 5. og 7. bekk. Mælitæki voru SRL listinn (Self Regulated Learning, Bandura, 2006) fyrir sjálfstjórn í námi, stytt útgáfa af PYD listanum (Positive Youth Development, Geldhof o. fl., 2014) fyrir farsælan þroska og fengnar voru upplýsingar um einkunnir á samræmdum prófum í íslensku og stærðfræði frá Námsmatsstofnun Íslands. Niðurstöður bentu til þess að hægt sé að nota sjálfstjórn í námi við 10 ára aldur sem forspá fyrir farsælan þroska og námsgengi tveimur árum síðar, sem er í samræmi við niðurstöður erlendra rannsókna. Kynjamun mátti finna á öllum breytum rannsóknar utan við frammistöðu á samræmdu prófi í stærðfræði. Stúlkur voru með meiri sjálfstjórn í námi en drengir, stóðu betur þegar kom að farsælum þroska og fengu hærra heildarskor í samræmdu prófi í íslensku. Einnig mátti finna vísbendingar um kynjamun á forspártengslum SRL bæði fyrir PYD og frammistöðu í námi sem gáfu til kynna að sjálfstjórn í námi við 10 ára aldur gæti verið mikilvægari þáttur fyrir farsælan þroska hjá drengjum en stúlkum þegar litið er fram á veginn. Þennan mun þyrfti þó að athuga nánar með viðeigandi marktektarprófum. Niðurstöður bentu meðal annars til að áherslu þurfi að leggja á að finna hvað það er sem greinir kynin að á þessum breytum og skýrir mismunandi stöðu þeirra varðandi þá þætti sem hægt er að nota til að spá fyrir um komandi gengi, bæði í þroska og frammistöðu í námi. Hægt væri að nota þær upplýsingar meðal annars til stefnumótunar í menntamálum.

Samþykkt: 
  • 1.6.2018
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/30594


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
MS í klínískri sálfræði Margrét Guðmundsdóttir.pdf938,65 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
IMG_20180601_0001.pdf418,93 kBLokaðurYfirlýsingPDF