is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/30618

Titill: 
 • Framköllun fæðinga á Íslandi árin 1997-2015
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Framköllun fæðingar er ferli sem felur í sér að fæðingarhríðum er komið af stað. Framköllun fæðingar er réttmæt þegar móður eða barni stafar meiri hætta af því að halda meðgöngu áfram heldur en að framkalla fæðingu. Tíðni keisaraskurða og framkallana fæðinga hefur aukist síðustu áratugi. Óvíst er hvort rekja megi aukna tíðni keisaraskurða til aukins fjölda framkallaðra fæðinga því ekki hefur verið staðfest samband þar á milli. Rannsókn þessi gekk út á að athuga tíðni framköllunar fæðinga og keisaraskurðartíðni hjá frumbyrjum og fjölbyrjum og bera saman mismunandi Robson hópa í þessu samhengi. Skoðuð var tíðni keisaraskurða hjá konum þar sem fæðing var framkölluð og borin saman við sjálfkrafa sótt.
  Efni og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn ferilrannsókn. Gögn voru fengin úr Fæðingarskrá Embættis landlæknis 1997-2015 og voru um 81.839 fæðingar á tímabilinu. Upplýsingar um fjölda fyrri fæðinga, fyrri keisaraskurði, meðgöngulengd, upphaf fæðingar, fósturstöðu og fjölda fóstra voru lagðar til grundavallar við að skipta fæðandi konum í 10 Robson hópa en 206 konur var ekki hægt að flokka. Skoðuð var tíðni framköllunar fæðinga og tíðni keisaraskurða og áhaldafæðinga í Robson hópum eftir árum og meðgöngulengd. Gögnin fengust á Excel formi og voru ópersónugreinanleg. Þau voru færð inn í tölvuforritið R þar sem tölfræðileg úrvinnsla fór fram.
  Niðurstöður: Hlutfall framkallana af öllum fæðingum jókst frá 1997 til 2015. Í lok tímabilsins árið 2015 var hlutfall framkallana orðið 24,5% sem er meira en tvöföldun frá árinu 1997 þegar hlutfallið var 12,0%. Yfir öll árin hélst hlutfall framkallana hærra hjá frumbyrjum en fjölbyrjum. Meðgöngulengd við framköllun fæðingar var hærri í byrjum tímabilsins. Þannig voru 30,8% framkallaðra fæðinga 1998 gerðar eftir 42 vikur en árið 2015 var það hlutfall komið niður í 6,0%. Samsvarandi hefur hlutfall framkallaðra fæðinga við aðra meðgöngulengd hækkað. Með fleiri framkölluðum fæðingum hefur hlutfallsleg stærð Robson hópa 1 (frumbyrja með barn í höfuðstöðu á tíma í sjálfskrafa sótt) og 3 (fjölbyrja með barn í höfuðstöðu á tíma í sjálfskrafa sótt) minnkað meðan hlutfallsleg stærð Robson hópa 2a (frumbyrja með barn í höfuðstöðu á tíma, framkölluð fæðing) og 4a (fjölbyrja með barn í höfuðstöðu á tíma, framkölluð fæðing) aukist. Tíðni keisaraskurða var mun hærri hjá konum í framkallaðri fæðingu miðað við sjálfkrafa sótt og þá langhæst í Robson hópi 2a. Hinsvegar virðist sem tíðni keisaraskurða hafi lækkað í öllum fjórum hópunum yfir tímabilið. Ef skoðaðir eru saman hópar 1 og 2a (frumbyrjur) annars vegar og hinsvegar 3 og 4a (fjölbyrjur) sést að tíðni keisaraskurða hefur ekki hækkað þrátt fyrir að fleiri konur í þessum hópum fari í framköllun fæðinga.
  Tíðni áhaldafæðinga lækkaði í Robson hópum 1, 3 og 4a yfir tímabilið en hækkaði hins vegar í Robson hópi 2a. Tíðni keisaraskurða og áhaldafæðinga jókst með hækkandi meðgöngulengd í Robson hópum 1, 2a, 3 og 4a.
  Aukin tíðni framkallana fæðinga virðist ekki hafa aukið tíðni burðarmálsdauða eða andvana fæðinga á tímabilinu.
  Ábendingar fyrir framköllun tengdar sykursýki, stóru barni og háþrýstingi hafa orðið tíðari í hópum 2a og 4a á tímabilinu. Tíðni ábendinga tengdum meðgöngueitrun og lengdri meðgöngu hefur lækkað í báðum hópum. Fleiri frumbyrjur en fjölbyrjur eru með meðgöngueitrun og háþrýsting en fleiri fjölbyrjur eru með sykursýki og stórt barn.
  Ályktun: Þó hlutfall framkallaðra fæðinga hafi tvöfaldast á rannsóknartímabilinu hefur tíðni keisaraskurða ekki hækkað, hvorki hjá frumbyrjum eða fjölbyrjum með eitt barn í höfuðstöðu við fulla meðgöngulengd.

Samþykkt: 
 • 4.6.2018
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/30618


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Framköllun fæðinga á Íslandi árin 1997 - 2015.pdf1.38 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Skemman.pdf512.98 kBLokaðurYfirlýsingPDF