Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/30622
Inngangur: 40% blóðþurrðarkasta hafa enga þekkta orsök. Í kjölfar blóðþurrðarslags án þekktrar orsakar greinist oft fósturop. Fósturop er op á milli gáttanna í hjartanu sem lokast eftir fæðingu. Það er mikilvægt í móðurkviði en það sér um að beina stórum hluta blóðs framhjá lungum, sem eru óstarfræk fram yfir fæðingu. Eftir fæðingu verða þrýstingsbreytingar innan hjartans sem veldur því að opið lokast og hefur alveg lokast innan eins árs. Í um 25% tilfella hefur opið hins vegar ekki lokast. Fæstir vita af opinu en það er yfirleitt meinlaust og veldur engum einkennum. Hins vegar er talið að fósturop geti stuðlað að blóðþurrðarslagi en sýnt hefur verið fram á hærra algengi fósturopa hjá fólki sem hefur fengið blóðþurrðarslag án þekktrar orsakar en hjá fólki sem hefur fengið blóðþurrðarslag vegna þekktrar orsakar. Talið er að fósturop valdi blóðþurrðarslagi með þverstæðublóðreki og þess vegna hefur því verið talið að lokun fósturops sé góð meðferð gegn endurteknu blóðþurrðarkasti. Einnig hefur fósturop verið tengt við mígreni en Sette og félagar sýndu fyrstir fram á að stór hluti þeirra sem eru með mígreni höfðu einnig hægri-til-vinstri tengla (right-to-left shunts) milli gátta sem stuðlar að blóðflæði súrefnislágu blóði til slagæðakerfi líkamans. Því hefur því einnig verið ályktað að lokun á fósturopi geti haft jákvæð áhrif á mígreni. Lokun á fósturopi með hjartaþræðingu er þó ekki laus við fylgikvilla, þá sérstaklega gáttaflökt, og þess vegna er það enn umdeilt hvort að ávinningurinn sé meiri en aukaverkanirnar sem þræðingin veldur. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna algengi endurtekinna blóðþurrðarkasta hjá einstaklingum sem höfðu gengist undir lokun á fósturopi og hversu há tíðnin er á gáttaflökti hjá þeim sem að gengust undir lokunina. Annað markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif lokunar á fósturopi á mígreni.
Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn þar sem að skoðaðar voru sjúkrasögur einstaklinga sem höfðu fengið blóðþurrðarslag og í kjölfar þess greinst með fósturop eða ASD sem að síðan var lokað með hjartaþræðingu á Landspítalanum árin 2005-2017.
Niðurstöður: Alls voru framkvæmdar 152 hjartaþræðingar á 146 einstaklingum greinst með fósturop eða op á milli gátta (Atrial septal defect, ASD), 143 í kjölfar blóðþurrðarslags og 3 vegna fjölskyldusögu eða tilviljun. Af 146 sjúklingum voru 89 konur og 57 karlar, kynjahlutfall 1:1.5 (karlar:konur). Meðalaldur við hjartaþræðingu var 45,62+/- 12,62 ára (spönn 17-74 ára). Meðalstærð ops var 10,1 mm (spönn 2-22,5 mm). Alls voru 5 einstaklingar (3,5%) sem fengu endurtekið blóðþurrðarslag eftir hjartaþræðinguna og algengi gáttaflökts eftir aðgerð var 3,4%. Af 146 voru 78 (54,2%) sem að mættu í vélindaómun 6 mánuðum seinna og eingöngu 3 með vægan leka. Algengi mígrenis var 36,3% en af þeim lagaðist eða hvarf mígrenið hjá 72,7%.
Ályktanir: Hjartaþræðing er örugg leið til að loka fósturopi en eingöngu 3,5% einstaklinga fengu endurtekið blóðþurrðarslag. Algengi gáttaflökts er sambærilegt því sem aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á eða um 3,4%. Hjá 72,7% einstaklinga með mígreni, lagaðist það eða hvarf alveg eftir aðgerð.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
viktoria.mjoll.snorradottir.lokun.fosturops.pdf | 762.28 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
skilalýsing.jpg | 58.6 kB | Lokaður | Yfirlýsing | JPG |